143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Elínu Hirst um að það á að leggja landsdóm niður. Ég tel að hann sé afdankað þing og hafi engum orðið til góða. Hann er pólitískur dómstóll með þeim rökum sem hv. þingmaður færði hér.

Ég get trútt um þetta mál talað vegna þess að ég er eini, held ég, þingmaður Samfylkingarinnar og eini ráðherrann úr þeirri ríkisstjórn sem barðist gegn landsdómi frá upphafi vega og var samkvæmur sjálfum mér. Ég var eini ráðherra Samfylkingarinnar sem greiddi atkvæði gegn því í andstöðu við allan þáverandi þingflokk fyrir utan fyrrverandi hæstv. forseta. Ég tel að það mál hafi verið hneisa og skömm og var alltaf þeirrar skoðunar. Ég tek undir þá hugmynd og tillögu sem ég held að flestir séu sammála um.

Þó að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hv. þm. Elín Hirst er ekki höfundur tillögunnar sjálfrar ber hún ábyrgð á henni og ég verð að segja við minn góða kollega að mér finnst það hræsni og skinhelgi af hv. þingmönnum, þar á meðal hv. þm. Elínu Hirst, að leggja fram þessa tillögu og lýsa því mjög vel í greinargerðinni hvað á að rannsaka. Þá rennur upp fyrir mönnum að það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja að ekki sé rannsakað er það sem þeirra eigin ráðherrar gerðu. Ef það er eitthvað sem var gert í öllu þessu ferli sem ekki var uppi á borðinu var það ýmiss konar samkomulag sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu.

Ef menn vilja gera sér grein fyrir því hvað stjórnsýslan, sem þeir réðu fyrir á þeim tíma, var að hugsa ættu þeir að skoða Wikileaks-skjölin. Þar kemur skýrt fram, í frásögn bandaríska sendiherrans, hvaða tölur menn voru að hugsa um. Og ég spyr hv. þingmann: Hvernig stendur á því að embættisfærsla þeirra ráðherra er ekki líka undir? Af hverju nefnir framsögumaður málsins (Forseti hringir.) einn fyrrverandi ráðherra — og bara einn? (Forseti hringir.) Það er til marks um skinhelgi 1. flutningsmanns (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) að hann talar um málefnalega rökræðu og dregur einn til ábyrgðar í framsögu sinni. (Gripið fram í.)