143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við þingmenn ættum að leyfa áheyrendum okkar að fella dóma um ræður þær sem hér eru fluttar og hversu málefnalegar þær eru. Ég sagði aldrei að hæstv. ráðherra hefði átt að koma inn með ný lög eftir þann tíma sem hann hefur setið á ráðherrastóli. Ég kallaði einfaldlega eftir því að hann hefði átt að hafa samband við aðra stjórnmálaflokka, ræða þann vanda sem hann væri í og setja af stað vinnu um það hvernig mætti standa að breytingum á þeim samþykktum sem gerðar hafa verið þannig að meiri sátt yrði þar um. Fyrst hæstv. ráðherra gerði það ekki liggur sá bolti hjá hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni. Ég treysti því að hann muni halda þannig á málum hér í þinginu og í nefndarstarfinu fram undan að niðurstaðan úr því verði sem víðtækust sátt stjórnmálaaflanna á Alþingi um það með hvaða hætti löggjöf um náttúruvernd á Íslandi verði skipað. Ég held einfaldlega að þjóðin ætlist til þess af okkur að við höfum þroska til að lenda þessum málum í eins breiðri samstöðu og við getum og að þurfa ekki að vera að kollvarpa þessari grundvallarlöggjöf, sem ég tel að allir Íslendingar eigi sinn hlut í, á fjögurra ára fresti. Það er sú áskorun sem hv. þingmaður stendur frammi fyrir og ég vona að hann rísi undir henni.