143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni framarlega í ræðu sinni þörf okkar fyrir gjaldeyristekjur og störf og vakti athygli á því að viðskiptajöfnuður er á horriminni hjá okkur. Þrátt fyrir myndarlegan eða ágætlegan afgang á vöru- og þjónustujöfnuði er fjármagnsjöfnuðurinn það neikvæður að við rétt höldum sjó í því tilliti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að í því ljósi séð meðal annars, að áherslur hæstv. ríkisstjórnar eru þær að draga úr áherslum á nýsköpun, þróun og tilurð starfa í þeim geira, nýsköpunarsprotageiranum og skapandi greinum, þá verðum við auðvitað að trúa því að hæstv. ríkisstjórn hafi einhverjar væntingar og vonir um vöxt á móti. Og þá vil ég taka hér upp og ræða það sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom reyndar líka inn á í andsvari við framsögumann málsins, að nú berast þau tíðindi að stærstu gullgæsina sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa trúað á að hún væri að fá fljúgandi hingað inn í hreiðrið á næstu mánuðum, þ.e. álverið í Helguvík, er nánast búið að slá af.

Hv. framsögumaður Pétur Blöndal taldi að vísu að það varðaði ekki beint efni frumvarpsins en það vill svo meinlega til að á fyrstu blaðsíðu nefndarálits meiri hlutans í málinu er fjallað nákvæmlega um þetta. Þar segir: „Atvinnuvegafjárfesting mun líklega dragast saman um 3,1% árið 2013 en stóriðjufjárfesting nær hámarki árin 2015–2016.“ Við vitum að það eru forsendurnar sem liggja hér til grundvallar.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað hann telur að ætti þá að gera í ljósi þessara frétta dagsins. Er ekki ómálefnalegt annað en að við setjumst yfir það í hv. nefnd, við getum gert það milli 2. og 3. umr., ef verulegar líkur eru á að þjóðhagsspá Hagstofunnar hafi verið að hrynja í dag, eða á morgun, (Forseti hringir.) vegna frétta sem bárust vestan hafs?