143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[23:40]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur áðan vil ég bera blak af forseta sem situr nú í stóli. Hann hvatti til þess í setningarræðu sinni í haust að mál kæmu snemma inn og að ríkisstjórnin stæði undir væntingum hvað það varðar. Það er ekki honum að kenna þó að við búum við verklausa ríkisstjórn.

Hitt er auðvitað athugunarefni hvort halda eigi næturfundi þegar við erum að tala í efnisríkri umræðu. Meðal annars kom í ljós í kvöld, fyrir svona klukkutíma eða tveimur, að menn hafa áttað sig á því að í frumvarpinu felst opin heimild til velferðarráðherra til að leggja á innritunargjöld af þeirri fjárhæð sem hann kýs, óhamið. Þetta er til dæmis að verða ljóst í þessari umræðu og þannig er hvert málið á fætur öðru að skýrast. Ég held að það sé full ástæða til að við virðum okkur þess að gera þetta í dagsbirtu og höldum umræðunni áfram á morgun.