143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

verðhækkanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[14:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta var því miður afar óljóst og við erum litlu nær. Hér er greinilega ekki hægt að gefa bara skýr svör um að hækkanir alls staðar verði undir 2,5% þaki. Það er eitthvað meira á ferðinni.

Þá hljótum við líka að spyrja: Hvar verður borið niður með hliðsjón af því að þessu verði hagað þannig að það komi þá tekjulægri hópum samfélagsins fyrst og fremst til góða í formi verðlagsbreytinga eða minni verðlagshækkana en ella? Það skiptir líka máli og sporin hræða í þeim efnum. Það er ekki nóg að setja falleg orð inn í áramótaávörp þegar menn á Alþingi hafa staðið fyrir hinu gagnstæða rétt áður. Það er ástæða til að efast um að annað verði upp á teningnum. Það var greinileg tregða og andstaða við það að breyta áherslum í skattamálum þannig að það styddi við kaupmáttaraukningu tekjulægstu hópanna. Megum við vænta hins sama þegar kemur að því — ef ríkisstjórnin leggur eitthvað af mörkum? Ég hef skilið það svo að fyrirheitið sé skilyrt, (Forseti hringir.) að það verði ekkert gert nema kjarasamningarnir verði samþykktir.