143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

sala fasteigna og skipa.

236. mál
[16:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu fasteigna og skipa á þskj. 365, í máli nr. 236. Í gildandi lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa er kveðið á um endurskoðun laganna 1. janúar 2008, þ.e. þegar reynsla væri komin á það fyrirkomulag sem fyrir er mælt í lögunum.

Hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra skipaði í maí 2007 vinnuhóp sem gera skyldi tillögur að breytingu á lögunum. Vinnuhópurinn skilaði í lok árs 2007 tillögum sínum í formi heildarfrumvarps til nýrra laga auk skýringa. Þann 1. janúar 2008 fluttist málaflokkurinn, þ.e. málefni fasteignasala, til viðskiptaráðuneytisins og var skipaður nýr starfshópur til að leggja fram lokadrög að frumvarpi til laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Hópurinn lauk störfum um miðjan mars 2008 og skilaði frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nokkuð áþekkum þeim sem fyrri starfshópur hafði skilað. Frumvarpið var síðan lagt fyrir Alþingi í kjölfarið en fékk ekki afgreiðslu. Frumvarpið var aftur lagt fram á vorþingi 2010 lítillega breytt og vorþingi 2012 en þá voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu frá því það var lagt fram á vorþingi 2010. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju lítillega breytt.

Markmiðið með frumvarpinu er að skapa það lagaumhverfi að viðskipti með fasteignir og skip fari fram með tryggum og öruggum hætti fyrir þá sem koma að slíkum viðskiptum, jafnt kaupendur sem seljendur og neytendur alla í heild. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki viðskipti með aleigu fólks og því er nauðsynlegt að löggjafinn marki skýra en sanngjarna löggjöf í þessum efnum. Þetta frumvarp er sérstaklega samið til að leggja áherslu á það. Þá er markmið þessa frumvarps jafnframt að tryggja þeim sem telja á sér brotið í fasteignaviðskiptum hraða og vandaða málsmeðferð til þess að þeir geti fengið úrlausn sinna mála. Verður nánar vikið að því hér á eftir.

Víkjum þá að helstu nýmælum frumvarpsins. Í frumvarpinu er það nýmæli að lagt er til að lögfest verði markmiðsákvæði í 1. gr. til að undirstrika markmið laganna, en með því er átt við að þeir sem hafa fengið einkarétt hjá hinu opinbera til að eiga milligöngu um viðskipti milli kaupenda og seljenda gæti hagsmuna beggja aðila. Þannig er lagt til að fest verði í lög að staða kaupenda og seljenda skuli lögð að jöfnu og hagsmuna þeirra beggja sé gætt.

Þá er lagt til í frumvarpinu að skýrt sé kveðið á um að fasteignasali megi ekki fela öðrum að vinna þau störf sem löggilding nær til, samanber 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þó er lagt til að fasteignasala verði heimilt að fela einstaklingum sem ráðnir eru til starfa hjá honum einstök afmörkuð verkefni við sölu einstakra eigna sem verða nánar útfærð í reglugerð. Tilefni þessa er að svo virðist sem nokkuð óljóst hafi verið hversu mikið af skyldum fasteignasalans hann geti framselt öðrum sem starfa í hans þágu og hvaða verk hann hafi ekki heimild til að framselja. Hér er þó ekki verið að koma í veg fyrir að fasteignasali geti látið aðra vinna einföld verk. Með þessu er einnig leitast við að setja nokkur bönd á svokallaða verktöku sem mikið hefur verið amast við. Jafnframt er tekið af skarið um að fasteignasali beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem valdið er af þeim sem starfa í hans þágu.

Í frumvarpinu er í d-lið 3. gr. tillaga um breytingar á fyrirkomulagi á menntun fasteignasala. Eins og fram kemur í skýringum með greininni er gert ráð fyrir því að reglur um menntun fasteignasala verði felldar að löggjöf um menntun á háskólastigi. Háskólar geta, ef frumvarpið nær fram að ganga, skipulagt nám fyrir fasteignasala. Það skal vera 90 staðlaðar námseiningar og er atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra eða iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimilt að setja reglugerð til að mæla fyrir um framkvæmd og tilhögun þessa náms. 90 staðlaðar námseiningar, svokallaðar ECTS-einingar, samsvara eins og hálfs árs háskólanámi, þ.e. 45 einingum samkvæmt eldra einingakerfi sem almennt hefur verið miðað við hér á landi í háskólanámi. Því er ekki lagt til að lengd eða umfangi námsins verði breytt, heldur að það verði flutt til háskólanna og jafnframt yrði prófnefnd fasteignasala lögð niður sem mundi einfalda stjórnsýslu og lækka rekstrarkostnað.

Með þessu frumvarpi eru að auki lagðar til tvær meginbreytingar á reglum um fasteignasala. Annars vegar er lagt til að skylduaðild að Félagi fasteignasala verði felld niður. Umboðsmaður Alþingis tók fyrir nokkru að eigin frumkvæði til athugunar skylduaðild að félaginu og hvort hún stæðist ákvæði stjórnarskrár Íslands um félagafrelsi, samanber niðurstöðu umboðsmanns Alþingis nr. 4225 frá 2004. Umboðsmaður taldi að vafi léki á því hvort þau verkefni Félags fasteignasala sem kveðið er á um í núgildandi lögum uppfyllti þau skilyrði sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar setti, þ.e. að skylduaðild væri nauðsynleg til að Félag fasteignasala gæti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna. Umboðsmaður Alþingis vakti athygli dóms- og kirkjumálaráðherra á álitinu.

Annars staðar á Norðurlöndum er skylduaðild að félagsskap fasteignasala ekki til staðar. Þrátt fyrir það hefur yfirgnæfandi meiri hluti fasteignasala í Danmörku, Svíþjóð og Noregi séð hag sínum best borgið með því að vera félagsmenn í slíkum félögum. Ekkert bendir til þess að málum yrði öðruvísi farið hér á landi. Flestir fasteignasalar mundu vafalaust sjá hag sínum best borgið með frjálsri félagsaðild enda ljóst að slíkur félagsskapur hefur margvíslega kosti.

Ein meginástæða þess að lögð var til skylduaðild í frumvarpi til gildandi laga var að gefa félaginu tækifæri til þess að eflast að burðum og skapa sér þá stöðu að verða leiðandi hér á landi eins og fram kemur í áliti allsherjarnefndar sem fylgdi frumvarpinu. Taldi nefndin að félagið kynni að styrkjast svo verulega í starfsemi sinni í framhaldi af lögfestingu að ekki yrði nauðsynlegt að kveða á um skylduaðild til frambúðar og því var lagt til að það fyrirkomulag yrði tekið til sérstakrar skoðunar að nokkrum tíma liðnum.

Þá hafa vinnuhópar þeir er unnu að endurskoðun gildandi laga vísað til fyrrgreinds álits allsherjarnefndar og komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið hafi þjónað tilgangi sínum. Við þetta bætist svo að Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu þann 12. nóvember síðastliðinn að skylduaðild að Félagi fasteignasala samkvæmt gildandi lögum brjóti gegn stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Ég hvet menn til að hafa í huga að skylduaðild að félögum er undantekning frá strangri meginreglu sem kveður á um að engan megi skylda til aðildar að félagi. Því ber að fara varlega og meta nauðsyn kirfilega þegar slík kvöð er ákvörðuð.

Lagt er til að afnuminn verði einkaréttur fasteignasala til að hafa milligöngu um sölu fyrirtækja eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Fasteignasalar geta þó sinnt slíkum störfum áfram þótt það falli ekki undir einkarétt þeirra. Vandséð er að menntun og reynsla fasteignasala veiti þeim meiri sérfræðiþekkingu til sölu atvinnufyrirtækja en öðrum, svo sem endurskoðendum og viðskiptafræðingum. Því þykir ekki rétt að útiloka aðra sérfræðinga, svo sem endurskoðendur og viðskiptafræðinga, frá því að veita milligöngu við sölu fyrirtækja.

Að lokum er lagt til að auk eftirlits með fasteignasölum skuli eftirlitsnefnd fasteignasala taka við kvörtunum frá kaupendum og seljendum fasteigna telji þeir að fasteignasala eða fasteignasali hafi valdið sér tjóni. Þannig geta kaupendur og seljendur fasteigna borið undir eftirlitsnefndina ágreining um þóknun og skaðabótaskyldu og aflað álits hennar um ágreiningsefnið. Hér er um að ræða mikilvæga réttarbót í þágu neytenda þar sem kostnaði við málsmeðferð verður stillt í hóf og málsmeðferð verður stutt.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni þýðingarmikið frumvarp sem muni stuðla að öruggari fasteignaviðskiptum og tryggja neytendur betur í slíkum viðskiptum. Nauðsynlegt er að skýrar reglur skapi frjálst en öruggt viðskiptaumhverfi sem neytendur og samfélag geta treyst.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.