143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

almenningssamgöngur.

[16:28]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja þessar umræður. Almenningssamgöngur eru mikið á milli tannanna á fólki þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Lengi hefur verið ljóst að ríkið hefur þurft að greiða niður þá starfsemi svo hægt sé hreinlega að halda henni úti, hvort sem er á lofti eða á jörðu niðri. Það segir okkur meðal annars umræðan sem hefur farið fram að undanförnu í fjölmiðlum og kom fram í máli Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, um til dæmis hin geysiháu flugfargjöld sem eru í gangi.

Þegar ég hugsa um þessa hluti, og marga aðra hér á þingi, velti ég alltaf fyrir mér hugtakinu almannaheill sem ég tel vera mælikvarðann í stjórnmálum. Og þeirri spurningu sem á ævinlega að vera efst á baugi þegar ákvarðanir, frumvörp eða lög eru samþykkt: Þjónar þetta hagsmunum almennings? Hvað er best fyrir land og þjóð?

Ég er alls ekki mótfallinn frjálsri samkeppni og vil sjá hana á sem flestum sviðum samfélagsins þó velta megi því samt fyrir sér hvort hún hafi alltaf verið til góðs fyrir neytendur hér á landi.

Sem íbúi á Suðurnesjum gladdist ég mjög þegar samningar náðust á milli Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum um tilhögun almenningssamgangna í febrúar 2012. Þar hillti undir það að þær samgöngur sem hafa verið afar slakar og engan veginn staðið undir sér kæmust í viðeigandi horf og fólk sem vinnur á einum stað á svæðinu og býr á öðrum, einnig á höfuðborgarsvæðinu, kæmist ódýrt á milli staða og ferðir mun tíðari. Það veit sá sem hér stendur hversu mikil fjárhagsleg áhrif það mundi hafa fyrir fólk ef þær samgöngur kæmust í gott lag. Þegar ég vann sem kennari í Njarðvík búandi í Grindavík kostaði það mig ein mánaðarlaun að koma mér til og frá vinnu á ársgrundvelli.

Síðan er einn punktur sem ekki er síður athyglisverður hvað varðar þetta mál á Suðurnesjum en hann er sá að skili þessi umdeildi leggur sem er Flugstöðin–Reykjavík umframhagnaði gæti hann verið nýttur til þess að greiða niður taprekstur leiða annars staðar á landinu, eins og t.d. í Eyþingi.

Hæstv. forseti. Ef stjórnvöld og hæstv. innanríkisráðherra halda sig við þann samning sem gerður var við Suðurnesjamenn og reyna að leita leiða til að leysa hann farsællega verða þau svo sannarlega að gæta hagsmuna almennings og vinna að almannaheill.