143. löggjafarþing — 63. fundur,  13. feb. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[12:39]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verð ég að viðurkenna að hv. þm. Össur Skarphéðinsson veldur mér verulegum vonbrigðum. Við ræðum hér nefndarálit hv. atvinnuveganefndar sem í eiga sæti þingmenn úr öllum flokkum, en vissulega ekki sá ágæti hv. þingmaður sjálfur. Reyndar var fulltrúi Samfylkingarinnar fjarverandi en (Gripið fram í.) hv. formaður nefndarinnar upplýsir að sá fulltrúi er fylgjandi þessu nefndaráliti.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur hér því miður með eintóma útúrsnúninga. Það sem ég var að kalla fram í og það sem ég vildi ítreka laut að því að leiðrétta þann misskilning sem hv. þingmaður fór með hér úr ræðustól, þ.e. að ég hefði lagt á það áherslu, þegar ég lagði skýrsluna fram, að nefndin ætti að hraða vinnu sinni. Ég gerði það ekki vegna þess að ég tel að mest sé um vert og mikilvægast í þessu máli að við vöndum til verka. Það er alveg rétt að það eru að verða breytingar og það er alveg rétt — það er eitthvað sem ég hef kynnt í ríkisstjórn og bíður umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd, sem ég veit að hv. þingmaður á sæti í — að í janúar kom fram hvítbók frá Evrópusambandinu um stefnumótun á sviði orku- og loftslagsmála til 2030.

Samkvæmt þeirri hvítbók frá framkæmdarstjórninni eru að verða breytingar á og þar með talið á umhverfi, styrkjaumhverfi, sem arðsemisútreikningur sæstrengsins byggir meðal annars á. Þá mundi ég gjarnan vilja, þegar við erum að fara að vinna með þetta, vera með allar þær upplýsingar undir höndum. Á hvaða leið er Evrópusambandið, sem hv. þingmanni er annars svo kært, í þessum efnum? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir þetta verkefni?

Ég segi því: Leiðbeining hv. nefndar er algjörlega skýr. Nefndin er að segja: Skoðum málið en vöndum okkur.