143. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hún ríður ekki við einteyming, óheppni hæstv. forsætisráðherra í samskiptum við blaðamenn. Svörin eru eiginlega ævinlega þau að ekki hafi verið rétt eftir honum haft. Það er nokkur vandi.

Nú kemur hér sá boðskapur að ef til vill verði engin áætlun stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta birt. Það eru öðruvísi samskipti við markaðinn til dæmis en voru uppi á sinni tíð. Einhver hefði talið að eitthvað þyrfti að liggja fyrir um það hvers menn mættu vænta í þeim efnum.

Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Á þá ekki að taka úr gildi gömlu áætlunina? Hún er í gildi og það er starfað samkvæmt henni þangað til annað er ákveðið. Það liggur ljóst fyrir að Seðlabankinn framkvæmir gjaldeyrisuppboð sín sem eru fyrsta skref af þremur í þeirri áætlun, á grundvelli þess að hún sé enn í gildi. Þar er boðaður mögulegur útgönguskattur og annað í þeim dúr, einmitt til þess að upplýsa markaðinn og efnahagslífið um það hvers menn megi vænta í sambandi við aðgerð af þessu tagi. (Forseti hringir.)

Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að skýra stöðuna betur en þetta og auk þess legg ég til að hæstv. forsætisráðherra vandi sig meira við val á viðmælendum úr fjölmiðlaheiminum.