143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[21:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið og um þróun mála innan sambandsins. Hún var lögð fram hér á miðvikudaginn í síðustu viku. Þess var getið í haust að þessi skýrsla yrði unnin, hún tekin til umræðu í þinginu og síðan yrði framhaldið skoðað. Þetta er það sem lagt var upp með og ég taldi að yrði ferlið.

Margt hefur verið sagt um þessa skýrslu. Það er algjörlega ljóst að hér takast á ólík sjónarmið, ekki bara í þessum þingsal heldur og úti í samfélaginu, þeir sem telja að ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið, fá hingað samning, leggja hann fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar og hinir sem telja að það eigi að slíta viðræðum við Evrópusambandið og bera það ekki undir þjóðina takast á um þetta.

Að því er virðist eru hins vegar æðimargir í dag sem ekki eru hlynntir aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða inngöngu í Evrópusambandið en óska eftir því að fá að taka afstöðu til þess hvort aðildarviðræður verði dregnar til baka eður ei.

Í þessari skýrslu er margt að finna sem styður það sem ég greiddi atkvæði með 16. júlí 2009, að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég get fundið margt í þessari skýrslu sem styður þá ákvörðun mína og sannfæringu að það eigi að ljúka þessum viðræðum og bera samninginn undir þjóðina. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að margt í þessari skýrslu styður líka þá sem eru á öndverðri skoðun. Í sjálfu sér geta því báðir aðilar fundið skoðunum sínum stuðning í þessari skýrslu.

Við höfum rætt hér, og það hefur farið hátt, að engar undanþágur eða sérlausnir sé að finna hjá Evrópusambandinu. Menn hafa samt bent á ýmis lönd sem hafa fengið undanþágur, varanlegar undanþágur, sérlausnir eða hvaða orð menn vilja nota. Menn hafa til dæmis nefnt Danmörku varðandi fasteignir. Ég get komið inn líka með tvo þætti hjá Álandseyjum sem eru sérlausnir eða varanlegar undanþágur. Önnur er sú að réttur til kaupa og eignar fasteigna á Álandseyjum heldur gildi sínu eins og hann var 1. janúar 1994 og það þýðir að grundvallarforsendan er sú að til þess að geta átt fasteignir á Álandseyjum verður maður að hafa þar ríkisborgararétt.

Í öðru lagi eru Álandseyjar taldar vera þriðja ríkis svæði samkvæmt reglugerð nr. 77/388/EEG sem þýðir að eyjarnar eru fyrir utan skattsvæði ESB og meðal annars eru skatt- og tollfrjálsar vörur seldar áfram í millilandasiglingum og flugi milli eyjanna og ESB. Af hverju? Jú, vegna þess að þessar siglingar eru lífsnauðsynlegar fyrir efnahag Álandseyinga. Þegar maður finnur slíkar varanlegar undanþágur sem eru beintengdar og lífsnauðsynlegar fyrir efnahag einstakra þjóða hef ég þá trú að sú sérstaða sem sjávarútvegurinn hefur á Íslandi og hefur haft í íslensku efnahagslífi frá örófi alda yrði virt.

Ef maður flettir upp á bls. 136 og 137 í þessari ágætu skýrslu þar sem meðal annars eru skoðaðir þeir nýju þættir sem sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins ætti að byggja á vegna þess að það er þar sem við munum láta steyta á skeri komi til aðildarsamnings eru það þessir þættir, með leyfi forseta:

„1. Aukin áhersla á vistkerfismiðaða stjórnun og langtímasjónarmið hvað varðar fiskveiðistjórn.

2. Notkun verndarsvæða.

3. Aðgerðir til að draga úr sóknarþunga.

4. Bann við brottkasti.

5. Aðgerðir til að efla smábátaútgerð.

6. Nýr sjóður […] sem ætlað er að styrkja útveginn til að hann geti stundað sjálfbærari veiðar, veiti styrki til strandsamfélaga til að hjálpa þeim að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, auk fjármögnunar verkefna sem skapa störf og auka lífsgæði fólks í sjávarbyggðum.

7. Aukin áhersla á svæðisbundna stjórnun og aukna ákvarðanatöku í héraði.

8. Framseljanlegar aflaheimildir […]

9. Þá er kveðið á um aukna skyldu framleiðenda til að merkja uppruna sjávarafurða og láta koma fram hvaða aðferðum var beitt við veiðarnar.“

Virðulegur forseti. Mér sýnist að flest af því sem þarna stendur, sem eru grundvallarþættir hinnar nýju sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, sé beintengt því sem við höfum lagt áherslu á á Íslandi. Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja af hverju við óttumst það að ræða þennan kafla og þennan þátt.

Hér hefur líka verið sagt að engar sérlausnir fengjust eða fáist. Hins vegar stendur skýrt og skorinort á bls. 6 í kaflanum um frjálsa vöruflutninga, með leyfi forseta:

„Ísland hefur fallist á reglur Evrópusambandsins eins og þær stóðu 1. mars 2012, með fyrirvara um niðurstöðu samningaviðræðnanna og með ósk um tvær sérlausnir og hefur verið fallist á aðra þeirra og upplýsinga óskað um hina, þ.e. beiðni Íslands um frávik frá reglum um markaðsleyfi lyfja, þ.m.t. tungumálaskilyrði.“

Hér stendur að þegar hafi verið fallist á í það minnsta eina sérlausn og að önnur sé til skoðunar. Samt fullyrða menn hér hver um annan þveran að engar sérlausnir fáist, hvergi og aldrei.

Virðulegur forseti. Það er líka á fleiri stöðum sem við höfum opnað kafla, m.a. um frjálsa för vinnuafls án þess að óska eftir sérlausnum og undanþágu vegna þess að við föllumst á þær reglur sem þar eru. Við gerum það sama í opinberum innkaupum, félagarétti, hugverkaréttindum og fjármálaþjónustu. Við gerum það í upplýsingasamfélaginu og fjölmiðlum og á fleiri stöðum vegna þess að við erum aðilar að EES og höfum tekið upp og innleitt gerðir og tillögur EES-samningsins. Við höfum sagt í þessum sal, jafnt þeir sem eru fylgjandi og þeir sem eru andvígur, að sá samningur hafi á margan hátt ýtt undir hagsæld á landinu frá 1993 eða 1994 þegar við samþykktum hann.

Menn hafa líka sagt hér margoft að við höfum ekkert þarna inn að gera og færa fyrir því sín rök. Ég er enn þeirrar skoðunar eins og ég var 16. júlí 2009 að við eigum að fara í þessar viðræður, ljúka þeim og koma heim með samning fyrir þessa þjóð og hún sjálf geti tekið ákvörðun um að samþykkja hann eða fella.

Það er dálítið merkilegt í allri svona umræðu um jafn vond mál og þetta virðist vera að þjóðin verður að sérstöku mengi fyrir þá sem vilja slíta viðræðum og líka fyrir þá sem vilja halda þeim áfram. Þjóðin, þetta mengi sem við tölum svo oft um og eignum okkur þegar við þurfum á því að halda í pólitík, sýnir vilja sinn í skoðanakönnunum og kosningum. Mér er það fullljóst og þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að sá flokkur sem ég er kjörin á þing fyrir hefur margoft sagt í landsfundarályktunum sínum, og landsfulltrúar, að flokkurinn telji að við séum betur komin utan Evrópusambandsins. Menn hafa tekist á um þetta á fundum, þeir sem eru sama sinnis og ég, við erum miklu færri, en hinir ráða að sjálfsögðu för. Þar er meiri hlutinn, þannig er þetta lýðræði, en það á ekki að taka frá heilli þjóð það að fá að segja skoðun sína.

Það er í mínum huga alveg sama hversu erfitt eða þungt verkefnið er, það þarf að útkljá það með einhverjum hætti og í mínum huga á enginn að útkljá þetta deiluefni nema þjóðin sjálf og það í atkvæðagreiðslu sem Alþingi Íslendinga ber síðan að virða og ganga frá þeim samningi sem þá liggur fyrir.