143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[15:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er hjartnæmt að finna fyrir því hversu tamt það er orðið þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á tungu orðið „ómöguleiki“. Það hefur greinilega verið sett í gang eitthvert æfingaprógramm um að allir segi það sem oftast. Það er ánægjulegt að einhver stemning er í þingflokknum.

Mig langar að segja að hér er ekkert flókin atkvæðagreiðsla undir. Við erum bara að tala um dagskrártillögu. Ég held að menn ættu nú alveg að róa sig með það. Við erum einfaldlega að tala um tillögu sem er þeirrar gerðar að hún brennur inni ef hún fær ekki afgreiðslu núna í þessari viku. Hún hefur gildi aðeins þessa fáu daga og þess vegna er málefnalegt, eðlilegt, gott fyrir lýðræðið og gott fyrir þingið að koma tillögunni á dagskrá. Það snýst ekki um hvort maður stendur með henni eða á móti, eins og sumir þingmenn hafa látið í skína að þetta snúist um það. Þetta snýst um það hvort við viljum að þingið fái að fjalla um mál sem er lokað inni í tíma, sem brennur annars inni. (Forseti hringir.) Er ekki allt í lagi?