143. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2014.

Dagskrártillaga.

[16:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að taka þetta mál á dagskrá eins og farið er fram á í tillögunni. Í fyrsta lagi hefði þetta mál getað komið fram fyrir löngu. (Gripið fram í.) — Ef ég mætti fá hljóð, forseti, það er erfitt að tala undir klið úr salnum.

Í öðru lagi stangast tillagan á við lög um þjóðaratkvæðagreiðslur en margir þeirra sem virðast spenntir fyrir því að fá tillöguna á dagskrá eru þeir hinir sömu og lögðu hér fram frumvarp og samþykktu um að slík þjóðaratkvæðagreiðsla gæti ekki farið fram samhliða sveitarstjórnarkosningum.

Í þriðja lagi er mönnum í lófa lagið að hætta málþófinu um skýrsluna sem er á dagskrá næst. Hættum bara málþófinu um þá skýrslu, tökum svo tillöguna um að draga aðildarumsóknina til baka, afgreiðum hana í nefnd, þá komum við að þessu máli í dagskránni. Stjórnarandstaðan hefur það því í hendi sér að hætta að tala fram á nótt til að þvælast fyrir þingstörfunum, greiða fyrir þingstörfunum og koma þessu máli þannig á dagskrá.

Má ég síðan biðja menn um að taka eftir þessu hér: (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn er á móti aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Hann mun aldrei styðja aðlögunarviðræður að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) og það á ekki að koma neinum á óvart þegar Sjálfstæðisflokkurinn berst gegn því hér í þinginu og annars staðar að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ég segi nei.