143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

makrílviðræðurnar, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[15:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það má taka undir það sem hér hefur komið fram, að sú niðurstaða sem náðist í gær hjá þremur aðilum, Færeyingum, Evrópusambandinu og Norðmönnum, komi á óvart í ljósi þess að viðræðum var slitið fyrir viku vegna þess að einn þeirra þriggja aðila, ekki sá sem skilinn var útundan ef við getum orðað það svo, gerði slíkar kröfur að aðrir gátu ekki gengist inn á þær. Það sem strandaði á fyrir viku var óbilgirni Norðmanna, fyrst og fremst, og þess vegna vekur þessi atburðarás furðu.

Auðvitað er ótímabært að vera með miklar kenningar um undirmál og baksamninga og annað þess háttar á þessari stundu, við höfum ekki þær upplýsingar. Við vitum um tilraunir í þá átt frá fyrri stigum í þessum viðræðum, eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra greindi frá áðan, en manni finnst atburðarásin í þessu efni lykta af undirmálum sem gerir að verkum að við hljótum að endurskoða marga þætti í samskiptum okkar við þessar þjóðir á því sviði.

Það er hárrétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að í ljósi hafréttarsáttmálans og stöðu okkar sem strandríkis verður samkomulag aðilanna þriggja enn ósvífnara en ella hefði verið. Það var lengi, eins og fram kom, reynt að halda okkur utan við stöðu strandríkis í viðræðunum en eftir að það var viðurkennt er ljóst að ekki á að gera svona samning nema við séum við borðið.

Fram að þessu hefur verið býsna góð pólitísk samstaða um stefnu Íslands í þessum efnum. Það hefur verið góð samstaða hér í þinginu og á vettvangi utanríkismálanefndar um þær áherslur sem boðaðar hafa verið af Íslands hálfu um að byggja veiðar úr stofninum á ábyrgum forsendum, byggja þær á ráðgjöf vísindamanna. Það er mikilvægt að þær ákvarðanir sem teknar verða í framhaldinu byggi á sömu forsendum þannig að við séum sjálfum okkur samkvæm.

Það vekur að sjálfsögðu furðu að aðilar sem alla vega í orði kveðnu höfðu fallist á þau sjónarmið, viðurkennt þau sjónarmið, eins og Evrópusambandið á fyrri stigum í viðræðunum, skuli nú snúa við blaðinu og vera tilbúnir til að taka þátt í ákvörðunum sem augljóslega munu leiða til veiða sem eru langt umfram ráðgjöf. Það er eðlilegt, eins og hér hefur komið fram, að fulltrúar íslenskra stjórnvalda krefjist svara, t.d. frá Evrópusambandinu, um hvað valdi snúningi þess í málinu. Það er mjög mikilvægt að gera þær kröfur til fulltrúa Evrópusambandsins.

Við þurfum líka að láta Færeyinga finna hvað okkur finnst um þeirra þátt í þessu og að sjálfsögðu Norðmenn, þó að við höfum lengi vitað að þar væri við ramman reip að draga í sambandi við þessi mál. Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld stigi fast niður og láti í sér heyra hvað þetta varðar. Ég held að taka megi undir orð sem hafa fallið í þá veru í þessari umræðu. Það er reyndar athyglisvert að fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra taldi að við ættum að stíga mjög fast niður gagnvart Færeyingum og Norðmönnum en hann gleymdi þriðja aðilanum. Það gleymdist kannski í yfirferðinni.

Niðurstaðan í því máli er sú að við verðum með skýrum hætti að standa á rétti okkar í þessu sambandi. Við eigum ekki að líta svo á að við þurfum að fara bónarleið til þessara aðila, til að biðja þá um leyfi, um hvað við megum veiða. Við verðum að taka ákvarðanir á okkar forsendum í þeim efnum. Það er mikilvægt að við gerum það. En í ljósi þeirra grundvallarprinsippa sem við höfum haldið fram í umræðunni alveg frá því að við fórum að taka þátt í þessum viðræðum, verðum við sjálfum okkur samkvæm, leggjum áherslu á ábyrgar veiðar en stöndum fast á rétti okkar. Við látum líka þessa aðila vita að okkur mislíkar hvernig komið er fram við okkur í þessu máli.