143. löggjafarþing — 84. fundur,  31. mars 2014.

félagsvísar.

425. mál
[19:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en það eru nokkur atriði sem vekja undrun mína. Markmiðið var náttúrlega að birta tölur, þ.e. Hagstofan tók að sér að uppfæra tölurnar árlega, en ég staldra við þetta ákvæði sem hæstv. ráðherra vísaði í, fimmta atriðið í markmiði samningsins, að sérfræðihópur félagsvísa skilgreindi í samvinnu við Hagstofu samtímabirtingu efnahagstalna og félagstalna með ákveðnum skilgreindum útgáfudagsetningum. Síðan er talað um að afhending niðurstaðnanna verði í febrúar, maí, ágúst og nóvember á hverju ári. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við náum þessu það langt að þetta verði eins og hagtölurnar, þ.e. að maður fái stöðuga uppfærslu og þannig stöðuna á samfélaginu á hverjum tíma. Ég geri mér grein fyrir að ekki er hægt að hafa allar upplýsingar í öllum tölum en það þyrfti að búa til einhvers konar mælikvarða á íslenskt samfélag þannig að þegar við tökum stórar ákvarðanir eins og hér átti að ræða á morgun, skuldaleiðréttingarnar, getum við metið hvaða áhrif þær hafi á samfélagið. Getum við séð einhverjar breytingar, hvernig er brugðist við o.s.frv.?

Ég veit að Hagstofan er með það mál sem sérverkefni en það hefur einmitt verið gallinn á allri tölfræði að það hefur alltaf kallað á einhver sérstök átök að fá upplýsingar um stöðuna á hverjum tíma. Það hefur ekki verið sjálfvirkur mælikvarði með raunupplýsingum um það hvað er að gerast í samfélaginu, hvaða áhrif hinar og þessar aðgerðir hafa haft á það.

Þetta hefur oft kallað á endalaust þvarg um tölur, stöðuna á málum og hvernig hlutir hafa þróast. Þannig hefur það meira að segja verið jafnvel þegar við erum að ræða um atvinnuleysi af því að við erum með tvenns konar tölur um það, frá Vinnumálastofnun og Hagstofu. Hugmyndin með þessu er að sammælast um hvað við mælum (Forseti hringir.) á hverjum tíma og hver þróunin er þannig að við getum skoðað stöðuna á samfélaginu og brugðist við með viðeigandi hætti.