143. löggjafarþing — 86. fundur,  1. apr. 2014.

framlagning stjórnartillögu samkvæmt 6. mgr. 25. gr. þingskapa.

[13:32]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Borist hefur eftirfarandi bréf: Í lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum er í 6. mgr. 25. gr. kveðið á um að sá ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins skuli leggja fyrir Alþingi, eigi síðar en 1. apríl ár hvert, tillögu til þingsályktunar um meginskiptingu útgjalda fjárlaga næsta fjárlagaárs, svo og greinargerð um breytingar á tekjuöflun ríkisins. Með tillögunni skal fylgja áætlun um ríkisfjármál næstu þriggja ára þar á eftir.

Ljóst er að ekki tekst að ljúka við gerð tillögunnar innan þeirra tímamarka sem fram koma í tilvitnaðri grein þingskapalaga, samanber lög nr. 84/2011, en slík þingsályktunartillaga hefur ekki verið lögð fram áður.

Verði frumvarpi til laga um opinber fjármál sem dreift var á Alþingi í gær að lögum mun sérstök fjármálaáætlun eða voráætlun fjárlaga verða lögð fyrir Alþingi á ári hverju og mun þá tilvitnað ákvæði þingskapalaga væntanlega falla brott.

Vinna að gerð tillögunnar fer nú fram í fjármála- og efnahagsráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti og verður hún lögð fram svo fljótt sem verða má en þó ekki fyrr en eftir páskahlé Alþingis.