143. löggjafarþing — 94. fundur,  9. apr. 2014.

fjögurra ára samgönguáætlun 2013--2016.

495. mál
[20:01]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir næstu tvö eða þrjú ár, 2013 er nú liðið. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og að fylgja eftir þessu máli og vil taka undir stefnu hennar í samgönguáætluninni um að bæta öryggi og viðhalda þjónustu á vegum. Það má kannski sérstaklega nefna Vestfirði sem hafa orðið út undan í viðhaldi vega. Ég held að fátt sé hættulegra en malbikaður vegur sem er orðinn að malarvegi aftur af því að fólk reiknar ekki með því.

Ég ætla að tæpa á nokkrum atriðum í þessu skjali sem snúa helst að Suðurkjördæmi þar sem ég þekki best. Mig langar að byrja á Hellisheiði sem er ein af þremur aðalleiðum úr höfuðborginni. Reykjanesbrautin var tvöfölduð fyrir nokkrum árum og síðan þá hefur ekki orðið banaslys þar. Þegar ég tala um Hellisheiðina fagna ég því að hana eigi að klára og hún verði 2+2. Ég vil þó vara við því að slys verði aftur þar sem hún er 2+2 að hluta. Ég veit ekki alveg hvaða pólitík eða verkfræði réð því, en ég vara við því þegar við förum í svona miklar framkvæmdir að gera það ekki almennilega.

Einnig vil ég nefna annan stað í vesturátt þar sem við heyrum af tíðum slysum, en það er undir Hafnarfjalli. Ég fann ekki neitt í skjalinu um það.

Ég tek undir það með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að einbreiðar brýr eru margar á Suðurlandinu. Ég held að þær séu ekki alveg 20, en ég er svolítið hissa á því að 2014, þar sem hámarkshraði er 90, séu enn þá einbreiðar brýr og malarvegir á Hringvegi 1. Einn hv. þingmaður nefndi áðan að það væru malarvegir á Hringvegi 1 fyrir austan. Ég held að við getum öll verið sammála um að einbreiðar brýr eru stórhættulegar þar sem hámarkshraði er 90, sérstaklega á Suðurlandsundirlendi þar sem mikið er af ferðamönnum. Þeir þekkja ekki aðstæður, koma þangað í myrkri og skilja ekki skiltin. Ég tel öryggisins vegna brýna nauðsyn að við breikkum þessar einbreiðu brýr sem fyrst og hraðast.

Mig langar aðeins að nefna Landeyjahöfn líka. Ég fagna því að ný ferja sé í hönnun, en vil þó óska eftir því að kynning á þeirri hönnun komi inn til umhverfis- og samgöngunefndar því að í mín eyru hafa borist talsverðir fyrirvarar um hvernig þetta muni verða. Mun hún þurfa að sigla til Þorlákshafnar? Hversu þétt mun hún sigla á milli og þar fram eftir götunum? Ég óska eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd verði vel upplýst um þetta útboð.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra um stefnu hennar í hálendismálum, þ.e. samgöngum yfir hálendið, þar sem ferðaþjónustan kvartar sáran undan slæmum vegum þar. Sagt er að það hafi áhrif á upplifun og aðgengi ferðamanna og hafi einnig takmarkað markmið ferðaþjónustunnar um að dreifa þjónustunni um byggðir. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.