143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

467. mál
[12:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hef eins og þingmaðurinn sannarlega áhyggjur af jafnræði í þessu ferli og líka því sem ég nefndi einfaldleikanum og skýrleikanum í því að erindi séu meðhöndluð á sama stað, að þau fái þar af leiðandi svipaða eða sömu meðferð, að minnsta kosti sambærilega meðferð, öll.

Það verður að hafa á því ákveðinn skilning að sveitarfélögin vilja hafa meira um ýmis mál að segja. En þá verður á móti að segja það á íslensku að það er auðvitað þannig að sum þeirra, einkum þau sem smæst eru, eðli málsins samkvæmt, skortir einfaldlega sérfræðiþekkingu, aðstöðu til að uppfylla það sem menn gjarnan vildu fela þeim. Þess vegna er það mjög mikilvægt, og ég ítreka það, að menn sameini í ríkari mæli krafta sína og sameini sveitarfélög. Togstreitan sem þingmaðurinn nefnir er hins vegar verkefni sem við þurfum að ræða betur. Við þurfum að leita leiða til að leysa úr.

Við viljum að íbúar í sveitarfélagi hafi áhrif á nærumhverfi sitt og nærsamfélag og hafi mikið um það að segja, sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna o.s.frv., en um leið eru sum mál þannig að þau geta ekki verið einkamál íbúa eins sveitarfélags heldur varða þau fleiri, þau varða aðra. Og hvernig við leysum úr þeirri togstreitu og mætum báðum þessum sjónarmiðum, það er vandratað.