143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[22:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki vafa undirorpið að þetta mun draga úr trausti verkalýðshreyfingarinnar í garð ríkisstjórnarinnar. Ég flutti ræðu á 1. maí hjá verkalýðsfélögunum á Selfossi og ég hvatti þar til þess, og geri það núna líka, að verkalýðshreyfingin standi vel í lappirnar, að það sé kominn tími til þess að hún slái svolítið frá sér. Þá er ég ekki bara að horfa á þau svik sem þarna voru, ég er að horfa á alla umgjörðina. Hátekjufólk kom hér fram, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, og síðan ráðherrar úr ríkisstjórn, og óskapaðist yfir því að fólk sem var undir 200 þús. kr. á mánuði í tekjur dirfðist að krefjast þess að laun þess yrðu hækkuð um einhverja þúsundkrónuseðla eða 20–30 þús. kr.

Ég hef reyndar verið með þá tillögu að sjónvarpið bregði á það ráð, fyrir hönd okkar almennings í landinu, þegar þeir kveðja sér hljóðs Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, eða Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra Íslands, að láta ekki sitja við það eitt að segja okkur hvað viðkomandi heita, heldur hvað þeir eru með í laun sjálfir, hverjar tekjur þeirra eru. Það er kominn tími til þess á Íslandi að fara að ræða um tekjuskiptinguna í þessu þjóðfélagi, það er það sem þarf að ræða. Þannig að samhengi hlutanna er miklu stærra en þetta. Annars vegar erum við að horfa upp á þessar „efndir“ svokölluðu á fyrirheitum, sem engar eru, og hins vegar er það þessi umgjörð, er það þessi rammi.

Þess vegna segi ég: Það hlýtur að vera að renna upp sá tími að verkalýðshreyfingin fari að slá á þá putta (Forseti hringir.) sem ráðskast með hana með þessum hætti.