144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að missa, ég get illa áttað mig á því. En ég ítreka að við megum aldrei slíta úr sambandi samhengi verðlags og launa. Auðvitað hækkar hærri prósenta á virðisaukaskatti matinn. En það eru ekki bændur og það eru ekki bara kaupmennirnir sem stýra verðlaginu á matnum, það eru líka fjölmargir aðrir þættir. Grundvallarþátturinn, sem ég var að reyna að draga fram, er að við verðum að horfa á þetta í samhengi við kaupmáttinn sjálfan.

Ég tók eftir því sem þingmaðurinn sagði hér áðan að á Íslandi væri bara í boði millistéttarmatur. Það er kannski svolítið vandamál allrar umræðu um matarverð á Íslandi að við erum með matvöru á mjög háu gæðastigi. Það er kannski ekki vandamál út frá þeim lýðheilsumarkmiðum sem við viljum viðhalda hér á Íslandi sem eru kannski grunnurinn að því að við viljum halda úti öflugum og sterkum íslenskum landbúnaði.