144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að gera tímabundið framlag vegna kynferðisafbrota gegn börnum að varanlegu framlagi hjá Barnaverndarstofu. Ég held að það sé mikilvægur áfangi í því starfi og ástæða til að hrósa ráðherranum fyrir þá ákvörðun sína um forgangsröðun.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um aðgerðirnar gagnvart atvinnulausum. Hvers vegna í ósköpunum, nú þegar aukast fjármunir í ríkissjóði og hagvöxtur er í landinu, tekur hæstv. ráðherra ákvörðun um að spara sérstaklega á atvinnulausum með því að stytta tímabil þeirra úr þremur árum í tvö og hálft og senda þá á sveit þar eftir? Ég veit að ráðherrann hefur vísað til danskra jafnaðarmanna í þessu efni, en það hlýtur að vera einhver misskilningur vegna þess að í Danmörku tekur annað tveggja ára kerfi við eftir tvö og hálft ár þannig að tímabil atvinnuleitar er samfellt í fjögur og hálft ár í því kerfi.

Var ekki haft samráð við sveitarfélögin um þetta? Hvers konar sparnaður er það eiginlega í opinberum rekstri að ýta útgjöldunum frá öðru stjórnsýslustiginu yfir á hitt? Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því að hún sé að segja í sundur friðinn á vinnumarkaði? Það er alveg augljóst að verkalýðshreyfingin bregst ókvæða við því að hér sé vegið að þeim sem kannski höllustum fæti standa innan þeirra samtaka og við þurfum að ná friði og kjarasamningum á vinnumarkaði í vetur. Hefur ráðherrann ekki áhyggjur af því að þessi aðgerð spilli fyrir því?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um þá ákvörðun að verja ekki krónu til starfsendurhæfingar. Ég get upplýst ráðherrann um það að á fundi í morgun um starfsgetumat sem lengi hefur verið unnið að varðandi öryrkja kom þetta til sérstakrar umfjöllunar. Uppi eru efasemdir um að hugur fylgi máli þegar stjórnvöld segja að þau vilji fara að horfa á getu öryrkja og vinna að því að auka endurhæfingu öryrkja út á vinnumarkað þegar ríkisstjórnin leggur ekki krónu til verkefnisins og hefur ekkert samráð haft um það við aðila vinnumarkaðarins sem hafa hingað til fjármagnað VIRK en munu þurfa að draga úr starfsendurhæfingu á komandi ári samkvæmt upplýsingum forsvarsmanna aðila vinnumarkaðarins á fundi í Pétursnefndinni í morgun vegna þess að það koma engir fjármunir frá ríkinu og vegna þess að aðilarnir hafa núna í þrjú ár í röð greitt fyrir endurhæfingu þeirra sem eru utan kerfa sem ríkissjóður ber ábyrgð á, samanlagt nú 840 milljónir, án þess að hafa fengið nokkur framlög.

Sömuleiðis vil ég spyrja hæstv. ráðherra annars. Þó að það sé á málasviði fjármálaráðherra varðar það örorkulífeyrisþega og stöðuna í velferðarkerfi þeirra yfir höfuð, um þann hluta af ákvörðunum í fjárlagafrumvarpinu að fella niður sérstakar greiðslur til lífeyrissjóða sem eru með þunga örorkubyrði. Það mun kalla á réttindaskerðingu í lífeyrissjóðum verkafólks sem (Forseti hringir.) unnið hefur erfiðisvinnu. Hafði fjármálaráðherra samráð við hæstv. ráðherra um þessa aðgerð?