144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er að þróast yfir í mjög áhugaverða umræðu þar sem sumir líta á áfengi sem hverja aðra vöru. Ég er sammála hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um að áfengi er ekki eins og hver önnur dagvara þótt í frumvarpinu standi, með leyfi forseta, eftirfarandi skilgreining:

„Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri.“

Skyldi hv. þm. Brynjar Níelsson vilja selja haglabyssur í leikfangabúðum? Ég hugsa ekki. (Gripið fram í.) Nei. Eru menn að hafa þetta í flimtingum? Eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hafa þetta í flimtingum? Þetta er alvörumál. Við setjum tilteknar reglur um tilteknar vörur eins og skotvopn. Menn hafa deilt mikið um þetta í Bandaríkjunum, hversu almenn sala eigi að vera á byssum. Við erum með strangar reglur um þetta. Varðandi tóbakið höfum við fært það inn í það form að það er ekki mjög til sýnis til að reyna að draga úr neyslu. Sama höfum við gert með áfengið þó að við reynum að gæta jafnræðis með öllum mönnum hvar sem þeir eru á landsbyggðinni. Ég vil taka undir með hv. þingmanni hvað þetta allt snertir.

Varðandi þann þátt sem hún nefnir sérstaklega og varðar byggðasjónarmið: Því hefur verið haldið fram, af þeim sem hafa talað fyrir þessu frumvarpi, að í því sé fólgin jákvæð byggðastefna. En mér skildist á málflutningi hv. þingmanns að hið gagnstæða sé uppi á teningnum. Er það réttur skilningur?