144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er enginn að amast við því að þingmál af þessu tagi skuli sett fram enda eru flutningsmenn í fullum rétti að setja fram þau mál sem þeir hafa áhuga á að setja fyrir þingið og helst að fá afstöðu þingsins um. Það er enginn að amast við því að þetta mál fái þinglega meðferð. Að sjálfsögðu mun það fara til nefndar og fá umfjöllun í nefnd.

Það sem menn vilja hins vegar að gerist, áður en málið fer til nefndar, er að við fáum sjónarmið hæstv. heilbrigðisráðherra fram þannig að þingheimur þekki það. Það er líka sjálfsögð kurteisi við landsmenn, sem í sívaxandi mæli eru farnir að taka þátt í þessari umræðu, vilja heyra hver afstaða stjórnvalda er, hver afstaða hæstv. heilbrigðisráðherra er, því að það var hann sem fyrir hönd ríkisstjórnarinnar kom fram í málinu í upphafi þessa árs.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gera gangskör að því að fá upplýsingar um ferðir hæstv. ráðherra og að við fáum (Forseti hringir.) upplýsingar um það áður en langt líður á umræðuna. En hún þarf ekki að vera ýkja löng ef við fáum þessu framgengt.