144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er bjartsýnismaður að upplagi, ég er fæddur þannig, og ég trúi á mátt rökræðunnar. Ég held ekki að verið sé að draga neinn á asnaeyrum. Ef hv. þingmaður lítur yfir gang umræðunnar síðustu tvo þingvetur kynni að renna upp fyrir henni að það er einmitt samræðan sem við höfum átt á Alþingi yfir þetta ræðupúlt sem hefur breytt afstöðu ýmissa. Þegar við komum til þings að loknum kosningum lá ekki þessi skilningur fyrir. Það var samræðan hér og vissulega líka úti í samfélaginu sem leiddi til þess að ráðamenn breyttu afstöðu sinni. Það hefur komið fram hægt og bítandi. Þess vegna er sú staða komin upp sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði hér fyrr í dag, það væri ekki spurning um hvort heldur hvernig yrði ráðist í þetta. Ég held því að það hafi náðst.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að á meðan ekki er ráðist í byggingu nýs spítala er verið að kasta fjármunum á glæ. Húsakynnin eru gömul, þau grotna niður og ég tel að núna þyrfti að ráðast í bráðaviðhald sem sennilega næmi 1,5 milljörðum. Ég hygg að innan skamms þurfi að fara að eyða 4–5 milljörðum á ári í viðhald því það er ekkert sett í viðhald að heita má.

Ég kom upp vegna þess að hv. þingmaður sagði réttilega og eðlilega að það væri skrýtið að við værum að reyna að fá samþykkta þingsályktunartillögu um sérstaka nefnd til að fylgja eftir því sem við samþykktum í fyrra. Þá vek ég eftirtekt hv. þingmanns á því að það sem hefur verið að breytast síðan 2008 á þingi er að þingið hefur öðlast meiri völd á kostnað framkvæmdarvaldsins. Þinginu hafa verið falin meiri verkefni. Ég tel að þetta sé rökrétt framhald á því. Þarna er um stórt verkefni að ræða og þingið náði niðurstöðu um að ráðast í það, eftir rökræðu, ég met það svo. Það er eðlilegt að þinginu sé líka falið að skera (Forseti hringir.) úr um þau atriði sem á vantar til þess að hægt sé að byrja.