144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fullvissa hv. þingmann um að allar þær greinar sem hann skrifar í Morgunblaðið og annars staðar les ég af fölskvalausri aðdáun. Ég er ekki alltaf sammála þeim, en oft koma þær mér til þess að hugsa nýjar hugsanir.

Ræða hv. þingmanns hérna áðan kom mér líka til þess. Mér finnst sú leið sem hann leggur hér fram framandi, þ.e. útfærslan á henni, og einnar messu virði að skoða hana. Lengra vil ég ekki ganga.

Hins vegar vil ég, með leyfi hæstv. forseta, segja hér við hv. þm. Björt Ólafsdóttur að hún hafi séð það sem ég var að tala um áðan, mátt rökræðunnar. Nú hefur það gerst að einn af þeim mönnum sem kom hingað í dag og var heldur skeptískur kemur hingað innblásinn af þrótti eftir að hafa hlustað á þessar umræður okkar og leggur fram eina leið. Það skiptir máli. Menn eru sem sagt farnir að hugsa í pragmatískum lausnum. (Gripið fram í.)

Ég hlakka til, herra forseti, að lesa grein hv. þingmanns um Landsbankann á morgun. Ég get meira að segja sagt að það er líka skynsamlega hugsað hjá honum þegar hann segir: Ef Landsbankinn verður seldur eða hlutur úr honum, á andvirðið þá ekki að renna til þess að borga skuldina?

Þá ætla ég að leyfa mér að bjóða hv. þingmanni í lengra ferðalag með mér. Það eru til fleiri bankar. Ríkið á 9% hlut í einum banka og mig minnir 5% í öðrum. Hvað hefur ríkið að gera við svo lítinn hlut í einhverjum bönkum? Ætli það samanlagt slagi ekki upp í þriðjung af því sem mundi kosta að fara í þennan áfanga sem við höfum verið að ræða á Landspítalanum?

Ég spyr hv. þingmann: Getum við sæst á að byrja á því?