144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[20:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega fyrir að draga fram það landsbyggðarfjandsamlega í málinu. Það er í raun alveg ótrúlegt hvað Framsóknarflokkurinn er farinn að ganga hart fram gegn landsbyggðinni í hverju þingmálinu á fætur öðru.

En athyglisverð hugmynd kom fram í máli hv. þingmanns. Við höfum rætt það hér að laxveiðileyfi eru undanþegin virðisaukaskatti núna á erfiðum tímum þegar verið er að hækka skatt á nauðsynjar til heimilanna. Þingmaðurinn vekur athygli á því að viðskipti með kvóta, bæði sala og leiga, eru undanþegin virðisaukaskatti. Hversu mikil eru þessi viðskipti árlega og hvað ímyndar þingmaðurinn sér að það geti skilað ríkissjóði miklum tekjum ef greiddur væri virðisaukaskattur af sölu á kvóta og leigu á aflaheimildum á milli útgerða og skiptum á aflaheimildum sömuleiðis?