144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[22:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi frumvarpið er það einfaldlega í skoðun og það sem menn hafa verið að velta fyrir sér eru einmitt þessi skil á milli líftíma Bankasýslunnar og hvaða verkefni það eru sem þar eru þá helst uppi á borðum og hvernig mun fara með þau í nýju fyrirkomulagi. Þetta eru spurningar sem ósköp eðlilegt er að menn spyrji sig þegar er verið að leggja til breytingu af þessu tagi. Það er því ekki nema eðlilegt að það taki einhvern tíma að bregðast við spurningum sem vakna.

Varðandi Landsbankann er því fljótsvarað. Við höfum engin afskipti haft og höfum enga aðkomu að rekstri bankans í fjármálaráðuneytinu og engin skilaboð sett fram á einn eða annan veg um rekstur bankans eða meðferð eigna. Það er síðan annað mál að þetta er ekki alveg einfalt þegar við höfum tekið ákvörðun um í fyrsta lagi að vera með armslengdarsjónarmið, sem mjög hefur verið til umræðu hér í dag og undanfarna daga, sem á síðan aftur að tryggja hlutleysi stjórnar og stjórn og stjórnendur bankans taka ákvarðanir eins og t.d. um sölu eigna. En þegar þeir hafa gert þetta í sinni armslengd frá þinginu og frá ráðuneytinu og stjórnmálunum í landinu þá koma upp sjónarmið um það að menn hafi ekki brugðist rétt við. Þá er spurningin: Gilda þá áfram armslengdarsjónarmiðin eða ekki? Vilja menn þá taka hlutina nær sér og hafa þá hérna undir handarkrikanum til þess að fá þá niðurstöðu fram sem þeim best líkar við?

Þarna lenda þingmenn kannski í ákveðinni sjálfheldu og verða að gera það upp við sig í eitt skipti fyrir öll hvort fyrirkomulagið menn vilja hafa, það sem býður upp á umræður hér í þinginu um einstakar rekstrarákvarðanir eða hitt sem byggir á armslengdarsjónarmiðunum?