144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Meðan aðrir landsmenn baka smákökur bakar ríkisstjórnin vandræði á vinnumarkaði með hækkun á matarskatti, með aðför að atvinnulausum, lífeyrissjóðum og starfsendurhæfingu. Í þessu fyrra máli af þeim tveimur stóru sem varða afgreiðslu fjárlaga kemur virðisaukaskatturinn til endanlegrar afgreiðslu. Hér leggjum við saman til í stjórnarandstöðunni að menn haldi áfram sykurskattinum og nýti síðan við fjárlagaafgreiðsluna þær tekjur til að efla og styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu, ekki síst Landspítala – háskólasjúkrahús, og takast á við þær vinnudeilur sem þar er við að eiga. Við í Samfylkingunni styðjum jafnframt ágæta tillögu frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni o.fl. sem lýtur að virðisaukaskatti á laxveiði, teljum það til bóta í virðisaukaskattskerfinu. En þó að við í andanum styðjum tillögur um afnám tolla á matvöru (Forseti hringir.) teljum við að tillöguna skorti nægilegan umbúnað og sitjum hjá við afgreiðsluna.