144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að taka einlæglega undir orð síðasta ræðumanns en ætla samt að fjalla um allt önnur mál. Við gerð síðustu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, árið 2013, sameinuðust helstu stofnanir landsins, ríkisstjórnin, Seðlabankinn, forustumenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingar, um að skella ábyrgðinni á stöðugleika í efnahagsmálum á launafólk í landinu. Gerðir voru kjarasamningar sem námu undir 3% almennra launahækkana. Í sumar sem leið kom í ljós að laun stjórnenda í fyrirtækjum hækkuðu um 13% á milli áranna 2012 og 2013 og þar með var launafólki gefið langt nef og tal forustumanna atvinnulífsins um heildarsamhengi og leiðréttingar var beinlínis ekkert annað en dónaskapur.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja í keppninni um að gefa almennu launafólki langt nef. Ríkisstjórnin hækkaði matarskattinn sem vegur þyngst í buddu þeirra sem hafa lægstar tekjur og afnam efsta þrep tekjuskattsins, hátekjuskattinn, sem auðvitað kemur einungis þeim sem mest hafa til góða. Í nýrri rannsókn kemur í ljós að 1% þjóðarinnar á fjórðung eigna í landinu og helmingur þjóðarinnar á minna en 750 þúsund. Og ríkisstjórnin afnam auðlegðarskattinn sem færði ríkissjóði nálega 10 milljarða.

Ráðstefnur eru haldnar um samfélagslega ábyrgð, virðulegi forseti. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækjanna á að vera að greiða fólki laun sem nægja til þess að fólk geti séð sér farborða og samfélagsleg ábyrgð þeirra á líka að vera að greiða fullt verð fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. Samfélagsleg ábyrgð ríkisstjórnarinnar á að vera að huga að velferð allrar þjóðarinnar en ekki einungis velferð þeirra ríku.

Forseti. Það er vitlaust gefið í íslenska efnahagsspilinu. Það þarf að stokka spilin og gefa upp á nýtt.