144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvers vegna í ósköpunum vill Sjálfstæðisflokkurinn flækja skattkerfið svona? Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra að hafa eftirlit með ferðum okkar um náttúru Íslands? Og hvers vegna í ósköpunum er ekki hlustað á tillögur stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar um að nota bara áfram gistináttaskattinn? Með því að nota gistináttaskattinn er ekkert verið að flækja skattkerfið frá því sem nú er. Verið væri að fara að óskum atvinnugreinarinnar og það þyrfti ekkert að auka eftirlit.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Sú hugmynd að flytja stöðumælaverði út fyrir póstnúmer 101 er auðvitað býsna nýstárleg, en hversu margir verða stöðumælaverðirnir í náttúru landsins? Hljóta þeir ekki að hlaupa á tugum? Og hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera ef Íslendingur neitar að greiða 15 þús. kr. sekt fyrir að ganga um náttúru landsins? Á að gera fjárnám hjá honum? Á hann að sæta frekari sektum eða varðhaldi eða (Forseti hringir.) til hvaða úrræða ætlar ráðherrann að grípa ef fólk er ósátt við þessa gjaldtöku?