144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er komið til umræðu mikilvægt mál og umdeilt. Ég vil fyrst segja að ég fagna út af fyrir sig þeim tón í málflutningi hæstv. ráðherra að hún hafi það fyrst og fremst að markmiði við framlagningu frumvarpsins að finna ásættanlega lausn á viðfangsefni sem þing og þjóð hefur verið að glíma við lengi, sem er gjaldtaka af ferðamönnum. Ég skynja þann tón þannig að nefndin og þingmenn hafi rúmt pólitískt svigrúm til að fara í saumana á þessu frumvarpi og ef aðrar lausnir til gjaldtöku af ferðamönnum reynast í augum okkar hér í þinginu betri þá verði þær leiðir farnar. Þetta held ég að sé mikilvæg vinna. Það verður að segjast eins og er að það hefur gengið erfiðlega að finna lausn á þessu úrlausnarefni.

Alls konar hugmyndir hafa verið viðraðar á undanförnum árum. Allar hugmyndirnar sem hafa verið nefndar í umræðunni hafa verið viðraðar áður á einhverjum tímapunkti, komugjöld, hátt gistináttagjald, náttúrupassi, hátt virðisaukaskattsþrep á ferðaþjónustu, en alltaf mætt andstöðu úr einhverri átt. Ég vil segja í upphafi í þágu sanngirninnar að ég hef alveg skilning á því að þetta sé ekkert einfalt mál. Að mörgu leyti er þessi umræða komin í öngstræti. Það er búið að mótmæla held ég öllum hugmyndum mjög kröftuglega. Það er kannski hægt að segja að hér komi ein hugmynd í viðbót, náttúrupassi, sem er líka mótmælt mjög kröftuglega og þá er alveg skiljanlegt að hæstv. ráðherra segi: Hvað eigum við að gera? Það er öllu mótmælt. Ég held að við verðum bara að stíga út úr þessu og horfast í augu við það að þetta hefur verið einkennandi fyrir umræðuna en núna þurfum við, og ég deili því með hæstv. ráðherra, að finna einhverja lausn á þessu. Við skulum reyna að gera það.

Eftir að hafa hugsað þetta mál, hugmyndina um náttúrupassa, og reynt að gera það af einlægni og með opnum huga þá stendur það upp úr að mér finnst þetta allt of klunnaleg leið til að ná í milljarð. Mér finnst þetta vera allt of mikið umstang, allt of mörg spursmál og allt of mikið flækjustig til að ná í þennan 1 milljarð sem á renna til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Mér finnst of margar spurningar í þessu máli sem eru einfaldlega of áleitnar. Í samanburði við aðra kosti til að ná í milljarð finnst mér náttúrupassi falla á prófinu.

Ef verkefnið er að ná í milljarð má náttúrlega fyrst benda á það að ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Veltan í ferðaþjónustu er mikil og hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum. Aðilar í ferðaþjónustu borga skatt, þeir borga virðisaukaskatt og tekjuskatt og eru undirseldir skattkerfinu á svo margan hátt. Það eru því mjög sterk rök fyrir því að segja einfaldlega: Ferðaþjónustan er búin að greiða þennan milljarð sem ætti að renna til uppbyggingar á innviðum greinarinnar. Það blasir við.

En gott og vel, við skulum fallast á það að ríkissjóður sé aðþrengdur og það þurfi að sækja þessa tekjur. Ég get alveg ímyndað mér blandaða leið, hækka gistináttaskattinn eins og margir aðilar í ferðaþjónustu hafa lýst yfir að hugnist þeim og hætta til dæmis að mestu leyti eða reisa meiri hömlur gegn því að ferðamenn fái undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts; þar liggja verulegir fjármunir. Ég held að með þessum tvennu væri auðveldlega hægt að ná langleiðina upp í milljarð á ári hverju.

Svo finnst mér líka skjóta skökku við að eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar var að hætta við að láta gistinætur fara upp í 14% virðisaukaskatt. 14% virðisaukaskattur á gistinætur var niðurstaða eftir smárökræðu sem hafði átt sér stað hérna í þinginu þar sem átti að fara með skattinn upp í 25,5% . Ég varð ekki var við annað en það væri sátt um það. Ég beitti mér fyrir því að ferðaþjónustan færi ekki upp í 25,5% og ég varð ekki var við annað en að 14% væri málamiðlun sem hefði vel verið hægt að halda. Mér fannst það skjóta skökku við að fyrsta mál ríkisstjórnarinnar var að fara með gisti næturnar niður í 7%. Þar með fóru 1,5 milljarðar úr ríkissjóði á ársgrundvelli, þar fór sá peningur. Það hefði auðveldlega verið hægt að sækja þennan pening og láta hann renna í ríkissjóð til uppbyggingar ferðamannastaða og þá þyrfti ekki að koma hingað inn með frumvarp um náttúrupassa. Mér fannst þetta allt mjög skrýtið.

Líka annað: Eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar var að hætta algerlega við fjárfestingaráætlun sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili. Þar var uppbygging innviða á ferðamannastöðum sérstaklega fjármögnuð. Það var sérstaklega tilgreint hvaðan peningar ættu að koma til uppbyggingar ferðamannastaða. Þeir áttu að koma frá arði fjármálastofnana sem eru í eigu ríkisins, aðallega Landsbankanum. Hluti þess arðs átti að renna til þessa verkefnis og svo áttu peningarnir líka að koma úr auðlindaskatti og sjávarútvegi. Þetta var allt saman samþykkt hér og fært til bókar í þessum sal að þetta ætti að gera. En ríkisstjórnin afsalaði sér í raun og veru í öðru tilvikinu að stórum hluta til þessum tekjum, sem er auðlindaskattur á sjávarútveg, og lét hins vegar nánast umræðulaust arðinn úr Landsbankanum sem kom hér inn í fjárlög, 20 milljarðar eða svo, renna beint í mjög umdeilda aðgerð sem er skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar.

Á þeim tímapunkti spurði ég hæstv. fjármálaráðherra hvort hann væri enn þá þeirrar skoðunar að fjárfestingaráætlunin, sem fól m.a. í sér uppbyggingu á ferðamannastöðum, hefði verið ófjármögnuð vegna þess að þarna var peningurinn, hann var í fjárlögunum sem voru samþykkt fyrir jól en nánast algerlega umræðulaust var hann látinn renna í þessa skuldatilfærsluaðgerð sem er í meira lagi umdeilanleg. Þarna var peningurinn. Það hefði verið hægt að halda sig við plönin, þriggja ára áætlun um uppbyggingu ferðamannastaða. Þarna var fjármögnunin. Hún var bara látin renna í annað. Menn hafa því verið að ýta frá sér peningunum sem áður var ákveðið að skyldu renna til ferðaþjónustunnar. Í ljósi þess finnst mér svolítið furðuleg niðurstaða að við skulum núna vera að ræða og vera komin með frumvarp um náttúrupassa, sem er svo mörgum augljósum annmörkum háð. Ég ætla aðeins að fara yfir það hverjir þeir eru í mínum huga.

Mér finnst allt í lagi að fólk borgi gjald sem rennur til náttúrunnar og uppbyggingu ferðamannastaða. Mér finnst 1.500 kr. ekkert mikill peningur. Ég get alveg séð fyrir mér að okkur öllum væri skylt, þess vegna með nefskatti, að borga 1.000 eða 1.500 kr. og öllum ferðamönnum væri skylt að borga 1.000–1.500 kr. og peningurinn rynni sem markaðar tekjur til þessa verkefnis Ég get alveg séð það fyrir mér. Það er ekki fjárhæðin, ekki málstaðurinn og ekki viðfangsefnið sem ég geri ágreining við, það er sú hugmynd að hægt verði að sekta fólk á för sinni um landið. Það er sú hugmynd að maður geti verið staddur við Deildartunguhver að kaupa tómata og þá komi einkennisklædd manneskja og sekti mann vegna þess að maður sé ekki með náttúrupassa. Deildartunga er ferðamannastaður. Þangað koma um 80–100 þúsund manns á ári með rútu til að skoða hverinn og þar eru tómatar seldir í hjólbörum. Hver eru mörkin? Ef ég er að synda í Laugarvatni, sem er annar ferðamannastaður, get ég átt von á því að vörður sekti mig af því að ég er ekki með náttúrupassa? Einkaaðilar eiga að geta haft aðild að þessu. Skógurinn í Húsafelli? Hvar eru mörkin? Hvenær er ég að njóta náttúrunnar sem Íslendingur á ferðamannastað? Verð ég þá alltaf að vera með þennan passa? Hver verða viðbrögð fólks við því þegar það verður sektað um 15 þús. kr. fyrir að vera statt í Deildartungu? Það er þetta andartak við þessa hugmynd sem ég fellst ekki á og held að standist ekki. Ég held að hugmyndin sé mjög slæm praktískt vegna þess að ef það á að láta þetta virka og allir eiga að kaupa náttúrupassa þá verður að segja fólki að eftirlitið verði mjög virkt, það verði um allt land, fólk megi eiga von á því að vera spurt um náttúrupassa, annars er þessi hugmynd algerlega dauð sem tekjuöflun. Það verður að vera einhver ógn í þessari hugmynd.

Það verður líka að vera einhver stjórnsýslulegur og málefnalegur grundvöllur fyrir sektinni. Það verður að vera ákveðið. Hver ákveður hvað er ferðamannastaður? Verður ekki ágreiningur um það strax? Á að fara að sekta mig um 15 þús. kr.? Hver ákvað að þetta væri staður sem mætti sekta mig á? Það er ekki nógu skýrt í frumvarpinu. Þetta verður allt að vera á hreinu. Hver eru viðurlögin við því að borga ekki sektina? Fer ég í fangelsi ef ég borga ekki sekt út af því að ég var ekki með náttúrupassa þegar ég var að kaupa tómata við Deildartungu? Hver er pælingin? Ef ég fer ekki í fangelsi, er þetta þá ekki bara eitthvað sem ég segi nei við, ég borgi ekki vegna þess að ég ætli bara að labba um landið? Hvernig virkar þetta? Og gagnvart túristum sem kaupa þriggja ára passa þegar þeir koma til landsins en fá svo sekt? Hvað ef þeir borga ekki? Er þeim þá ekki hleypt úr landi? Eru þeir stöðvaðir eða ætlum við að hafa eftirlitssveitir um alla heimskringluna að leita fólkið uppi? Fær það ekki að koma aftur til landsins? Hvað er í gangi? Hvað gerist? Er búið að hugsa þetta í gegn? Hvernig á þetta að virka? Hvernig á þetta að ganga upp? Það er þetta sem ég meina þegar ég segi að þessi leið sé allt of klunnaleg og vanhugsuð til að ná í milljarð af atvinnugrein sem er farin að velta mörg hundruð milljörðum. Mér finnst þetta skrýtið.

Stundum hefur verið sagt að ævintýrið í íslenskri ferðamennsku og upplifun af náttúru Íslands sé frelsið, að menn geti farið um að eigin vild og verið frjálsir í náttúrunni, geti íhugað þar og verið með sjálfum sér. Mér finnst það vera algerlega augljóst þegar ég les þetta frumvarp að ævintýrinu í íslenskri ferðaþjónustu og íslenskri náttúru er stefnt í voða. Það er ekki góð tilfinning ef maður ferðast um landið að geta á hverju andartaki átt von á stöðumælaverði. Ég segi stöðumælaverði vegna þess að mér fannst það alls ekki hugmyndinni til framdráttar þegar sú líking var notuð að náttúruverðir væru eins og stöðumælaverðir. Ég er oft nautstressaður í miðborg Reykjavíkur yfir því hvort ég hafi greitt í stöðumæli eða ekki. Ég vil ekki vera stressaður yfir því hvort ég eigi von á stöðumælasekt yfir alla upplifun af náttúru- og ferðamannastöðum Íslands.

Ég held að við ættum að reyna að finna betri leiðir og ég held að þær blasi við og séu fjölmargar.