144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þetta svar. Ég held að við séum alveg á sömu línu hvað þetta varðar. Ég tek undir það sem hann velti upp hér áðan, það er þessi framtíðarsýn. Hæstv. ráðherra hefur sagt að um sé að ræða 10 til 12 staði en síðan er þetta frjálsa leyfi hjá einkaaðilum. Þeir verða þá væntanlega mun fleiri staðirnir þar sem menn fara að rukka inn af því að mönnum er í sjálfu sér gefið það frjálst að öllu leyti, að minnsta kosti er ekki reynt að sporna gegn því í frumvarpinu. Það skortir algjörlega á þessa sýn, finnst mér, í frumvarpinu, þ.e. að við sjáum til einhverrar lengri framtíðar hvort það verði áfram bara þessir staðir eða ekki og hvort einkaaðilum verður heimilt að rukka miklu meira inn á sinn stað en ríkið ætlar hér að fara út í.

Þingmaðurinn ræddi mikið hvað gerist ef maður borgar ekki, sektir og viðurlög og annað. Hér var nefnt að maður færi kannski ekki í fangelsi fyrir stöðumælasektir, en það er til dæmis gert fjárnám. Hvernig gestgjafar erum við og viljum vera? Hvernig gestgjafi vill hin íslenska þjóð vera? Vill hún hafa þá ásýnd að hér sé fyrst og fremst verið að hugsa um peninga og að hafa sem mest af ferðamanninum? Mig langar að vita hvort hv. þingmaður tekur undir það með mér að það sé ekki góð ásjóna út á við og hvort við ættum ekki frekar að taka þetta í gegnum neysluskatta, þ.e. tekjur af ferðamönnum.

Hæstv. ráðherra nefndi hér skilgreininguna á því hvað ferðamannastaður væri. Þrátt fyrir landsáætlunina, það er líka óskýrt þar, það sem á að ræða hér síðar; þar kemur fram að ferðmannastaður er skilgreindur sem staður (Forseti hringir.) sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamanninn vegna náttúru sinnar og sögu. Það er ekkert spurt hvernig (Forseti hringir.) slíkur staður verður til, hvernig hann öðlast slíka sögu þannig að hver (Forseti hringir.) sem er, sveitarfélög eða aðrir, getur ákveðið (Forseti hringir.) hjá sér hvað kemur til með að þjóna því …