144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður fór nokkuð yfir muninn á því hvenær fólk gæti átt von á því að vera sektað af því að það væri ekki með náttúrupassann á sér eða ef það hefði ekki keypt hann. Talað hefur verið um Þingvelli í þessu sambandi, að við Íslendingar þyrftum að fara að borga til að fara á Þingvelli. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra í morgun að hún vildi gera nokkuð úr því og sagði: Það er ekki rétt. Það er hægt að keyra í gegnum Þingvelli og það væri hægt að fara í berjamó á Þingvöllum. Við borgum ekki fyrir að horfa á fossinn en við borgum fyrir að standa á pallinum fyrir framan fossinn. Við borgum fyrir að ganga stígana sem liggja upp að fossinum.

Segjum að ég færi með barnabörnin í berjamó á Þingvöllum, svo segði ég alltaf við þau: Passið ykkur að fara ekki á stíginn — eða leyfði þeim kannski að vera á stígnum af því að þau þurfa ekki að borga af því að þau eru svo lítil, en ég væri alltaf fyrir utan stíginn. Er það ekki bara ávísun upp á að við mundum ekki nota stígana á Þingvöllum sem þó eru lagðir til að reyna að hlífa náttúrunni? Ég veit að hv. þingmaður getur kannski ekki svarað þessu vegna þess að þetta er náttúrlega svo mikið rugl, en hann gæti kannski hjálpað mér að varpa ljósi á hvers konar rugl þetta allt saman er.