144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að ég hallast að því og tel að gistináttagjaldið eigi bara að vera áfram er sú í fyrsta lagi að það er þegar komið á, það er ekki verið að finna upp hjólið í því. Það er mjög auðvelt að breyta útfærslu þess eins og ég taldi reyndar að hún ætti að vera frá byrjun, þ.e. að það sé einhverjum flokkum dýrara á hótel og vandaðri gistingu, ódýrara á gistiheimili og farfuglaheimili og lítið eða helst ekkert á tjaldstæði eða eitthvað slíkt, bara einfalt framkvæmdaratriði. Eftir sem áður er ég síður en svo að útiloka komugjöld eða farseðlaskatta ef það er eina leiðin til að lenda þessu að leggja þetta á báða aðila; eins og niðurstaðan varð á sínum tíma í nefndarstarfinu, þegar menn bentu endalaust hver á annan. Flugfélögin vildu gistináttagjald, hótelin vildu flugfélagaskatt og niðurstaðan varð auðvitað: Þið verðið þá bara báðir að sitja uppi með eitthvert lítið gjald og það er ekkert ósanngjörn niðurstaða, tiltölulega einföld og ódýr innheimta.

Síðan held ég að ef rétt væri horft á það þá gæti vaxandi hluti þessa tekjustofns á komandi árum komið frá þjónustugjöldum. Nú er verið að stækka bílastæðin á Hakinu og þar eru komin hundruð malbikaðra bílastæða sem hafa kostað tugi og aftur tugi milljónir úr ríkissjóði að byggja upp. Hvað er að því að menn borgi fyrir að leggja þar bílum, t.d. að rútur borgi 1.000 kr. gjald. (Gripið fram í.) Það er einfalt mál að sjá um það, miklu einfaldara en þessi óskapnaður, hv. þm. Pétur Blöndal. Eða ætlar hv. þingmaður að ráða sig hjá Ferðamálastofu í náttúruvörsluna?

Hvernig á að koma í veg fyrir einkagjaldtökuna? Ég held að það verði að gera það með því að skilgreina, meðal annars á grundvelli náttúruverndarlaga, þau svæði sem eiga að vera opin, þar sem engu máli skiptir hver eigandinn er, hvort það er ríki, sveitarfélag, þjóðlenda, einkaaðili, þetta er hluti af náttúru Íslands í þeim skilningi, öll náttúruvætti, öll friðlýst svæði, allir slíkir staðir eiga að falla undir almannaréttinn og vera opnir. Þá koma auðvitað skyldur á móti af hálfu ríkisins gagnvart viðkomandi einkaaðilum og það getur meðal annars verið það að hann eigi rétt á fjárstuðningi til úrbóta á sínu landi ef þess þarf.