144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi eftirlitið tek ég undir með hv. þingmanni, ég hef heldur ekki stórkostlegar áhyggjur af því. Ég held einmitt að langflest okkar séu þannig að við borgum uppsett verð og reynum ekki að komast undan því. Ef maður sæi bleikklæddan náttúruvörð tilsýndar yrði hegðun manns frekar sú að hlaupa í sjálfsalann og kaupa en að ætla að stinga vörðinn af. Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því.

Varðandi virðisaukaskattinn hef ég heyrt þessar hugmyndir um endurgreiðsluna í versluninni. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að kynna mér til hlítar þau áhrif sem það mundi hafa á verslun í landinu. Nú tala ég frekar sem ráðherra verslunar og þjónustu. Við þurfum að passa upp á hana líka, en ég tel sjálfsagt að skoða þetta atriði með öðrum af því að þarna eru ákveðnar tekjur. Það tengist líka síðari spurningunni um virðisaukaskattinn og undanþágurnar. Við verðum að skoða bæði endurgreiðslurnar og undanþágurnar í samkeppnisumhverfinu, ekki hér innan lands á milli fyrirtækja heldur Ísland sem áfangastað. Við vitum að ef við förum of bratt í virðisaukaskattshækkanir, hvort sem það er á gistingu eða aðra þjónustu, hefur það áhrif á samkeppni. Við sáum það í athugasemdum þegar til stóð að hækka í einu vetfangi virðisaukaskattinn og við sjáum, t.d. ef við miðum okkur við Danmörku þar sem er mjög hár virðisaukaskattur á gistingu, að Danir kvarta undan því að það hafi áhrif á eftirspurnina.

Alla þessa hluti verðum við að skoða í samhengi. Ég held að ef við ætlum að horfa til framtíðar og framtíðarmarkmiða varðandi virðisaukaskattinn — þá tala ég út frá sjónarmiði mínu og míns flokks — viljum við stefna að einu þrepi. Við vorum að hefja þann leiðangur í fjárlagagerðinni að minnka bilið þarna á milli. Besta staðan væri að geta haft sæmilega lágt eitt þrep og engar undanþágur. Þangað viljum við stefna fyrir ferðaþjónustuna og alla aðra.