144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:53]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað sem hv. þingmanni kann að finnast um það þá er núna verið að rukka. Það er verið að rukka í Kerinu, gerðar voru tilraunir til þess við Geysi og fyrir norðan. Þau dómsmál sem snúast um þau mál núna eða þau mál sem eru fyrir dómstólum snúast ekki um hvort það sé heimilt eða ekki. Það eru svona húsfélagsmál. Þau snúast um hvort meiri hluti landeigenda geti tekið ákvörðun svo veigamikla eins og að taka aðgangseyri fyrir aðgang að landinu í óþökk minnihlutaeigenda. Í tilfelli Geysis var það ríkið sem var minnihlutaeigandi og gerði athugasemd við það. Fyrir norðan voru það einkaaðilar beggja megin við borðið. Það er það sem verið er að skera úr um núna, lögfræðilega deilumálið, má landeigandi rukka aðgang að landi sínu? Það hefur ekki farið fyrir dómstóla, það er það sem er óútkljáð. Þess vegna segi ég, eftir sem áður er ég að vísa til þess að verið er að rukka. Og hv. þm. Ögmundur Jónasson veifar hér úrskurði Umhverfisstofnunar og spyr mig: Af hverju fer ég ekki og banna þá lögleysu? Jafn ágæt og Umhverfisstofnun er þá er hún ekki dómstóll og um úrskurð Umhverfisstofnunar er ekki einhugur heldur hef ég séð lögfræðiálit sem ganga þvert á þetta.

Ég væri manna fegnust ef þetta væri útkljáð og ég vona svo sannarlega að við getum gert það, en það er dómstóla, ekki þeirrar sem hér stendur, ekki frekar en hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson beitti sér fyrir því að það yrði með ákveðnum hætti bannað. Þegar hann var í ríkisstjórn kom ekki fram tillaga hjá þingmanninum, lagabreyting eða stjórnarskrárbreyting sem sagði: Landeigendur mega ekki rukka aðgangseyri fyrir náttúruperlur. Það er bara staðan sem við erum í í dag. Almannarétturinn er varinn af náttúruverndarlögum og hefðarrétti og öllu því sem við höfum talað um og okkur þykir öllum vænt um. En eignarrétturinn er (Forseti hringir.) líka varinn og það af stjórnarskránni. Við þurfum því að fara gætilega með þessi tvenns konar grundvallarréttindi og ég vona svo sannarlega þrátt fyrir þetta að við náum að leysa þetta viðfangsefni því það er verkefni okkar á þingi núna.