144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi einmitt ekki þá sem borga skatta heldur þá sem eru skattskyldir; fátækt fólk er skattskylt á Íslandi þó að það greiði ekki skatt og fengi þennan persónuafslátt greiddan út til að kaupa náttúrupassa. Allir Íslendingar gætu þá keypt náttúrupassa fyrir persónuafslátt.

En varðandi eignarréttinn þá er það rétt hjá hv. þingmanni að í síðari hluta 3. mgr. 4. gr. segir að heimild eigenda eða umsjónaraðila til að taka gjald fyrir veitta skilgreinda þjónustu á ferðamannastöðum sé þó ekki takmörkuð. Þetta mætti fella út, þetta gæti hv. nefnd fellt út. Eftir stendur að menn sem hafa girt land sitt — þeir sem vilja gætu girt Seljalandsfoss af, það er ein af mínum mestu upplifunum að ganga á bak við foss, og þá mætti ég ekki fara inn á það land, hvað þá að ganga í kringum fossinn. Þetta er nú bara svona. Líka með íbúðir, ég get ekki vaðið inn í íbúð hv. þingmanns eða inn á lóð hans. Hann gæti bannað mér það mjög ákveðið og sagt: Þú ferð ekkert hingað inn. Það er hluti af hans eignarrétti og landeigendur hafa þennan rétt.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvað Hæstiréttur segir þegar þetta rekst á, almannarétturinn og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég mundi vilja láta dómstóla dæma um það eins og væntanlega mun gerast þegar menn fara að taka gjöld af Kerinu og mjög víða annars staðar. Þá mun reyna á það hvort menn megi horfa á ákveðna náttúru, auðlindir eða náttúrufegurð, án þess að borga gjald. En menn geta girt Kerið af, menn geta girt Seljalandsfoss af og Skógafoss o.s.frv. og þá geta menn horft á það úr fjarlægð gegnum kíki.