144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins árétta spurningu mína, sem fjallaði ekki um það hvort almannaréttinum yrði gert hátt undir höfði eða ekki. Almannarétturinn í íslenskri löggjöf er nú til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd í endurskoðun náttúruverndarlaga. Það liggur því ekki fyrir hver afgreiðsla Alþingis verður á inntaki og eðli almannaréttarins.

Almannarétturinn í sjálfu sér, það liggur fyrir hvað hann felur í sér, en hvernig hann er nákvæmlega skilgreindur, það skiptir máli sem grunnur að því þingmáli sem hér hefur verið til umræðu í þrjá daga.

Það er það sem ég er að spyrja hv. þingmann um. Deilir hann ekki þeim skilningi með mér að það þurfi að liggja fyrir hver skilningur Alþingis er á almannaréttinum og stöðu hans áður en frumvarp hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa verði til lykta leitt?