144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:24]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara koma hingað upp til að fagna þessu framkomna frumvarpi með það bak við eyrað að markmið frumvarpsins er að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhald á ferðamannasvæðum, ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum á Íslandi og að í forgangi verði alltaf náttúruvernd og sjálfbærni höfð að leiðarljósi.

Við vitum öll að með fjölgun ferðamanna og meiri ágangi á ferðamannastaði á landinu hafa þeir látið á sjá og það gerist vegna þess hvar við erum stödd á hnettinum. Náttúran okkar er viðkvæm og þolir illa ágang. Við höfum ekki haft neina heildstæða stefnumarkandi áætlun um vernd og uppbyggingu á innviðum ferðamannastaða. Ég vil því koma hingað upp til að fagna þessu frumvarpi og vona að það verði okkur virkilega til gagns.