144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám verðtryggingar.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér fannst þetta svolítið gildishlaðin spurning. Hv. þingmaður gaf sér eiginlega niðurstöðuna í eigin spurningu og sú niðurstaða var röng eins og hv. þingmaður á að geta séð af því svari sem vísað var til og þeirri vinnu sem þar er lýst. Ríkisstjórnin er að innleiða gríðarlega umfangsmiklar breytingar, í raun mestu breytingar sem hafa verið gerðar á fjármálakerfinu hér um mjög langt skeið með þeim aðgerðum sem lýst er í svari til hv. þingmanns. Spurning sem gengur út á það að leggja mat á aðgerðaleysi fær því ekki staðist ef hv. þingmaður lítur einfaldlega á þær aðgerðir sem þar er verið að framkvæma. Ég get ekki bætt miklu við það öðru en því að benda hv. þingmanni á að lesa svarið sem barst við fyrirspurn ekki alls fyrir löngu.