144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að bréf utanríkisráðherra feli í sér staðfestingu á þeim veruleika að það eru engar viðræður í gangi. Það eru engar viðræður í gangi. Það voru viðræður í gangi, það lognaðist út af á árinu 2013, reyndar í mikilvægustu köflunum tveimur árum fyrr. (Gripið fram í.) Ef við tökum þetta út frá orðanna hljóðan er rétt hjá hv. þingmanni að auk áréttingar á stefnu ríkisstjórnarinnar kemur fram í bréfi utanríkisráðherra að óskað sé eftir því að nafn Íslands sé tekið af lista yfir umsóknarríki, Ísland hafi ekki stöðu sem umsóknarríki. Það hins vegar, svo við höldum okkur við formalítetið, þýðir ekki endilega að umsókn sé afturkölluð. Ég nefni, eins og kom fram á fundi nefndarinnar í morgun, að Sviss hefur til dæmis aldrei afturkallað umsókn sína frá 1992 en er þó ekki umsóknarríki.