144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að heyra ræðu síðasta hv. þingmanns en hann er, eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, væntanlega að koma af misheppnaðasta flokksþingi Íslandssögunnar. Hafi einhver velkst í vafa um það að Samfylkingin sé skilgreint pólitískt afkvæmi Alþýðubandalagsins var það algjörlega undirstrikað um helgina. Það er enginn vafi um það lengur. Við erum hér núna með mjög vel skilgreinda tvo alþýðubandalagsflokka, VG og Samfylkinguna, annar er að vísu mikill einsmálsflokkur utan um Evrópusambandið sem ég vonast til að við fáum að ræða þrátt fyrir að hv. þingmenn Samfylkingarinnar reyni hvað þeir geta til að takmarka ræðutíma þegar á að ræða slíka hluti. Ég held að ég hafi að vísu heyrt forsmekkinn hjá hv. þm. Helga Hjörvar og vil bara segja fyrir mig sem áhugamann um stjórnmál að ég er mjög spenntur að heyra hvaða samfylkingarspuni fer af stað núna þegar kemur að kúvendingunni í olíumálinu. Hér hafa hvorki meira né minna en aðalþungavigtarmennirnir í Samfylkingunni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og hv. þm. Oddný Harðardóttir, farið mikinn sem olíumálaráðherrar, lofað öllu fögru og séð alveg gríðarleg tækifæri í þessu öllu saman. Núna, ekki fyrir nokkrum árum, ekki fyrir nokkrum mánuðum, heldur 27. janúar, kom þetta mikla olíufólk og samþykkti á þinginu tillögu um ríkisolíufélag. Sem áhugamaður um stjórnmál er ég spenntur að fylgjast með því hvaða spuni fer af stað. Ég held að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi byrjað á þessu. Hann talar um mikilvægi þess að við séum framarlega í umhverfismálum — sem við höfum verið. Þegar kemur að loftslagsmálunum er það þannig að Íslendingar hafa verið fremstir þjóða vegna þess að við höfum nýtt (Forseti hringir.) endurnýjanlega orkugjafa og ég vona að við höldum því áfram.

Ég mun fylgjast af athygli með þeim spuna sem fer núna af stað (Forseti hringir.) eftir að þessir hv. þingmenn voru teknir niður á flokksþinginu.