144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hann kom aðeins inn á samtal sem ég átti hér við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um eftirlitsiðnaðinn sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kallar svo. Þar erum við algjörlega á öndverðum meiði, ég og sá ágæti hv. þingmaður. Eins og ég sagði í andsvari mínu þá tel ég sem sagt alveg nauðsynlegt að til þess að við getum rekið nútímamarkaðskerfi þurfi að vera eftirlit með markaðnum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þessa máls, t.d. matvælaeftirlits, lyfjaeftirlits og embættis landlæknis sem á að hafa eftirlit með heilbrigðisstofnunum. Eru þessar stofnanir eins mikill þyrnir í augum hv. þm. Willums Þórs Þórssonar og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni á undan honum?

Ég varð virkilega fyrir vonbrigðum með það í þeirri áætlun sem hér kemur fram að tryggingagjald lækkaði ekki meira en raun bar vitni. Mig langar að spyrja: Hver er afstaða hv. þingmanns til þess að lækka frekar önnur gjöld, vörugjöld eða tolla eða hvað það er kallað? Ekki svo að skilja að ég vilji ekki lækka það líka en ég er á móti því að láta það ganga fyrir tryggingagjaldinu.