144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnismikla og góða ræðu þar sem hann fór vel yfir sviðið. Eins og hann segir er alltaf mikil togstreita milli verndar og nýtingar og þess vegna veltir maður fyrir sér hvað valdi því að það dragist svo að friðlýsa svæði. Það kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns, og það hefur komið fram annars staðar líka, að í friðlýsingarnar voru einungis ætlaðar 28 milljónir, en þó það, í fjárlögum fyrir árið 2013 og það var ákvörðun fyrri ríkisstjórnar. Síðan þá hefur ekki verið lögð króna í friðlýsingar. Telur hv. þingmaður að það boði einhverja sátt í þessum málaflokki sem er svo umdeildur þegar menn láta ekki eina krónu í að friðlýsa svæði eða flokka þau og vinna áfram með það verkefni?