144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem við stóðum frammi fyrir þegar verið var að vinna með þær upplýsingar og umsagnir á sínum tíma var meðal annars þetta: Því var haldið fram að vistkerfið í Þjórsá mundi skaðast varanlega og aðallega búsvæði fiska. Það yrðu rennslistruflanir í nánast allri ánni, eða 97%, lífsskilyrði skordýra mundu versna og bitmý mundi ekki þrífast. Það yrðu óheppilegar breytingar á vatnsrennsli fyrir laxfiska, frumframleiðsla mundi stórminnka, breyting yrði á súrefni og dreifingu næringarefna, virkjanir mundu eyðileggja hrygningarstaði og náttúruleg seiðaframleiðsla minnka og sjóbirtingur deyja fljótt út.

Þetta eru helstu atriðin sem komu fram í þeim umsögnum, sem ekki lágu nægileg rök fyrir að væri búið að kanna nógu vel. Þessar spurningar voru uppi og því voru virkjunarkostirnir náttúrlega ekki flokkaðir, af því að í rauninni erum við aðeins með tvo flokka, það eru nýtingarflokkur og verndarflokkur. Síðan erum við með flokk af virkjunarframkvæmdum sem þarf að rannsaka og skoða betur.

Ég vil bíða eftir faglegu mati. Um leið og stjórnmálamenn eru farnir að segja: „Heyrðu, ég blæs nú bara á þetta og blæs á hin og þessi rök, ég hef ákveðið að gera þetta sjálfur“, er þetta fokið út í veður og vind og þar með er traustið farið. Auðvitað eigum við að fara eftir ferlinu og ekki að hunsa niðurstöður verkefnisstjórnar. Niðurstaða verkefnisstjórnar sýnir að það var sannarlega ekki að ástæðulausu sem þessir virkjunarkostir voru settir í biðflokk.