144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni og styð þá tillögu sem hér er á dagskrá. Það má líka velta því fyrir sér þegar við fjöllum til dæmis um þingsályktunartillögur, eins og ég nefndi við forseta í gær, hvort hægt sé að koma fram með drastískar breytingar eftir að stjórnarandstaðan hefur séð meiri hlutanum fyrir því að ræða hér mál sem virðist vera til uppfyllingar, af því að teygja þarf þingið svo einhver mál komi frá ríkisstjórninni sem skipta verulegu máli.

Við höfum hins vegar tiltekin mál sem við getum afgreitt í sátt. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann hafi átt eða hugsi sér að eiga samtöl við formenn stjórnarflokkanna og þingflokksformenn um dagskrána. Ég held að það sé lag að gera það núna og reyna að ná sátt í þessu máli þannig að hægt sé að ljúka hér þingstörfum með einhverjum sæmilegum brag.