144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[16:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þegar maður er ósáttur verður maður að segja það og ég ætla að halda áfram að nota þennan lið til að láta skoðun mína í ljós um þennan málatilbúnað allan. Það koma alltaf ný og ný tilefni. Mig langar að beina því til forseta og skrifstofu forseta í þinginu að skoða almennilega hvort aðrar leiðir en ágreiningur í þingsal séu kannski fyrir hendi í þinghaldinu og hvort ekki eigi að reyna að hanna þær vegna þess að það sem við verðum vitni að er að ágreiningur kostar, hann tekur toll, og nú er mjög mikill ágreiningur í þessu máli. Þetta er ekki málþóf, þetta eru ekki neinar málfundaæfingar, það er bara gríðarlega djúpur ágreiningur hér í gangi. Ég hvet hæstv. forseta til að horfast í augu við það að þegar svona ágreiningur er á meðal þingmanna eru alveg til aðrar viðurkenndar leiðir til að glíma við svoleiðis, jafnvel fyrirbyggjandi. Hér eru þær leiðir alveg augljósar.