144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nefna að í gær var kosið um þessa dagskrártillögu og hún var felld. Við ættum að velta því fyrir okkur að stjórnarandstaðan virðir ekki niðurstöðu þeirrar atkvæðagreiðslu. Hún gerði það ekki í gær, fór endalaust upp undir liðnum um fundarstjórn forseta. Þegar upp var staðið voru bara sex efnislegar umræður um rammaáætlun, þrjár frá stjórnarandstöðu og þrjár frá stjórnarmeirihlutanum. Það voru nú öll ósköpin. Allan daginn, hugsið ykkur. (Gripið fram í.)

Ég velti fyrir mér ákalli stjórnarandstöðunnar um að við tökum til umræðu stöðuna á vinnumarkaði, sem við höfum áhyggjur af. Það var rætt hér í sérstakri umræðu um daginn og það liggur engin slík beiðni fyrir frá stjórnarandstöðunni — ég athugaði það hjá þingfundaskrifstofunni og gat ekki fundið því stað. (Gripið fram í.) Miðað við þær upplýsingar sem ég hef hefur engin slík beiðni komið fram. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég held að við ættum að (Forseti hringir.) klára rammaáætlun, að við ættum að virða niðurstöðu þingsins og virða það vald sem forseti hefur hér.