144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði bara ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að hv. þm. Jón Gunnarsson — ábyrgðarmaður málsins, talsmaður þess, höfundur atlögunnar að hæstv. umhverfisráðherra, maðurinn sem hefur öðrum fremur ákveðið að setja þetta mál í uppnám og barist fyrir því á hæl og hnakka — sæti ekki hér í þingsal. Ég man ekki eftir því á þingferli mínum, sem er nú aðeins farinn að lengjast, kannski óþægilega, þó að hann sé ekkert svakalega langur, að formenn nefnda sitji ekki í þingsal þegar mál sem er á þeirra ábyrgð er til umræðu. Sérstaklega ætti svo að vera í þessu máli þar sem málið hefur tekið algerum stakkaskiptum frá því það var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég legg því þunga áherslu á að hv. þm. Jón Gunnarsson komi til umræðunnar og ítreka þá ósk sem komið hefur fram að umræðunni verði frestað þar til hann komi hér í hús. Það er algert lágmarksatriði að hann sé viðstaddur umræðuna. Svo er það nú ekki þannig að verið sé að gera mönnum rúmrusk. Ráðherragenginu, eins og hv. þm. Páll Jóhann Pálsson orðaði það, ber skylda til að mæta á þingfundi nema forföll hamli. Þeir eru þingmenn og þeim ber að sækja þingfundi.