144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

sáttatónn í stjórnarliðum.

[12:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Takk fyrir þessa kynningu. Hugmynd mín um að fundur sé haldinn í atvinnuveganefnd og verkefnisstjórnin sé kölluð fyrir er einmitt komin frá því sem lesa má um í þingsályktunartillögunni sjálfri um niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, þar sem hún taldi að til þess að hægt yrði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þyrftu að liggja fyrir upplýsingar um tiltekin atriði. Það kemur fram, virðulegi forseti, varðandi áhrif á laxfiska, að Landsvirkjun hafi lagt fram ný gögn og fleiri um svokallaðar seiðaveitur. Ég segi þetta meðal annars vegna þess að upphaflega var hugmyndin sú að ráðherra legði fram á fjögurra ára fresti þingsályktunartillögu um nýja rammaáætlun. Því var breytt í meðförum þingsins og nú segir „eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti“. Skoðun Alþingis er þess vegna sú að hægt sé að brjóta þetta niður og taka þetta oftar í smærri áföngum líkt og ráðherrann gerði með þessari tillögu um aðeins einn virkjunarkost. (Forseti hringir.) Við þurfum ekki frekari vitnanna við. Þetta stendur allt hérna.