144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér mundi lítast ágætlega á það. Mér mundi hugnast betur að þessir fjármunir rynnu beint í sóknaráætlun landshluta. Byggðakvóti er mjög verðmætur. Það eru tugir milljóna þarna undir. Sumar sjávarbyggðir hafa sagt: Við viljum frekar fá peninginn — það er verið að úthluta verðmætum og við viljum frekar að það sé bara boðið í þau og við fáum peninginn til atvinnuþróunar á svæðinu. Mér finnst það líka vera hugmynd til að skoða frekar en að fara þessa hefðbundnu byggðakvótaleið.

Það er önnur ástæða sem styður að mikilvægt sé að setja þetta í sóknaráætlanir. Landbúnaðarsveitarfélög, sveitarfélög sem fá ekki aðstoð í formi byggðakvóta, gætu þá líka notið stuðnings í gegnum þetta fyrirkomulag. Það er mismunun þarna á milli. Það er brugðist við áföllum í sjávarbyggðum með byggðakvóta sem er mjög verðmætur og skiptir auðvitað miklu máli en landbúnaðarbyggðirnar sem eru í vanda fá ekki slík verðmæti upp í hendurnar. Mér finnst sjálfsagt að setja þetta í sóknaráætlun landshluta og deila síðan þaðan út eftir þeim reglum sem eru þar undir.